Reyðfirðingar í Ghetto betur: Keppa í að fela dóp

Upp er að renna stór helgi fyrir Reyðfirðinga, í kvöld keppa þeir Andri Freyr og Helgi Seljan í spurningaþætti fyrir hönd sveitunga sinna, á morgun er haldin Bryggjuhátíð á Reyðarfirði og á sunnudaginn er haldið uppá Hernámsdaginn.

Ghetto betur er nokkursskonar spurningaþáttur í umsjón Steinda Jr. sem sýndur er á Stöð 2. Í hvern þátt mæta tveir fulltrúar frá bæjarfélagi eða hverfi, svara spurningum og glíma við óvenjulegar þrautir.

Nafn þáttarins vísar til orðsins “ghetto” sem einkum er notað um hverfi í stórborgum og þýða mætti sem einhverskonar fátækrahverfi eða hættulegan borgarhluta.

Er markmiðið þannig að sýna frammá hversu “ghetto” keppendur frá hinum ýmsu svæðum eru. Bornar eru upp spurningar á borð við hvað kosti að leigja videospólu auk þess sem keppendur þurfa að leysa ýmsar þrautir á borð við að standast yfirheyrslur eða losa sig við lík. Fregnir herma að meðal verkefna kvöldsins séu að fela neysluskammt af kannabisefnum.

Þátturinn í kvöld er sá síðasti af sex þáttum seríunnar en fram að þessu hafa lið af höfuðborgarsvæðinu att kappi. Í kvöld verður þó fyrsti landsbyggðarslagurinn þar sem Reyðfirðingarnir Helgi Seljan og Andri Freyr Viðarsson mæta Sunnlendingunum Þórunni Antoníu Magnúsdóttur og Andra Fannari Bjarkasyni.

En Reyðfirðingar ætla líka að lyfta sér upp á Reyðarfirði um helgina, á bæði Bryggjuhátíð og Hernámsdegi. Bryggjuhátíð er haldin á Reyðafirði á morgun og byrjar hún klukkan 12:00 með handverksmarkaði og myndlistarsýningu á Kaffi Kósý, þá verður boðið upp á kajak róður á andapollinum auk glæsilegrar skemmtidagskrár á túninu fyrir neðan N1. Um kvöldið er svo haldið hverfagrill en hverfin eru nefnd eftir gömlum bryggjuheitum frá Reyðarfirði.

Á sunnudaginn líkur svo viðburðaríkri helgi með þí að haldið verður uppá Hernámsdaginn. Þá gefst öllum kostur á að skoða Íslenska stríðsárasafnið að kostnaðarlausu á opnunartíma frá 13:00 til 17:00 en klukkan 15:00 verður farið yfir hernámið á Reyðarfirði og fléttað inn samantekt atburða sem gerðust á Austurlandi á hernámsárunum og spiluð létt tónlist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.