Reynir að koma Seyðisfirði á flöskur

Hönnuðurinn Philippe Clause vinnur að því að útbúa ilm sem sé einkennandi fyrir Seyðisfjörð. Til þess hefur hann safnað hráefnum úr náttúrunni og eimað heima hjá sér. Fyrstu afurðirnar eru komnar í sölu.


„Það er erfitt að finna lykt af einhverju sem er í raun ekki til. Seyðisfjörður er eins og rammi og ég er að reyna að skapa ramma innan hans,“ segir Philippe.

Verkefnið heitir „ilmbankinn“ eða „The Scent Bank“ og segir Philippe markmiðið að „setja Seyðisfjörð á flöskur“. Til þess hefur hann einkum leitað fanga í náttúru staðarins. Síðasta sumar safnaði hann þannig sýnum úr 40 jurtategundum og eimaði heima hjá sér. „Í lok sumars var ég kominn með þrjár tegundir af eimingu sem ég kalla blæ. Ég prófaði að selja síðasta sumar og það tókst vel.“

Phillippe fékk hálfa milljón króna í styrk þegar úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands nýverið. Hann stefnir að áframhaldandi þróun og ætlar að vera kominn með grunn að frekari vöruþróun í nóvember á þessu ári. Ilmefnin eru gerð fyrir heimilisnotkun. „Ég er ekki farinn að þróa neitt fyrir húðina. Það þarf fleiri leyfi og rannsóknir til þess.“

Ilmurinn er ekki eina verkefnið sem Philippe tengist því hann er einnig aðili að verkefni um Gömlu bókabúðina á Seyðisfirði þar sem hann er með vinnustofu og hyggst koma upp markaði. Það verkefni fékk eina milljón í styrk en búast má við að Seyðisfjarðarilmurinn verði þar til sölu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.