Rithöfundalestin 2020: Ísland – náttúra og undur eftir Ellert Grétarsson

„Ísland – Náttúra og undur“ er heiti nýrrar ljósmyndabókar eftir Ellert Grétarsson, sem bókaútgáfan Nýhöfn gefur út. Þetta er önnur ljósmyndabók Ellerts en fyrir tveimur árum gaf Nýhöfn út bókina „Reykjanesskagi –Náttúra og undur“, sem hlaut góðar viðtökur.

Ellert Grétarsson, sem bjó á Egilsstöðum um árabil, er vel kunnur fyrir ljósmyndir sínar af íslensku landslagi og náttúru. Í þessari bók sýnir hann myndir af ýmsum fágætum náttúruperlum sem landið vort fagra hefur að geyma.

„Þetta er ekki dæmigerð túristabók með myndum af fjölförnustu áfangastöðunum. Við höfum öll séð mikinn fjölda mynda frá þeim stöðum, teknar frá öllum mögulegum sjónarhornum og ég hef engu við það að bæta.

Í staðinn langaði mig að sýna ljósmyndir af svæðum og fyrirbærum sem minna sést af, í bland við aðra þekktari staði, og sýna landið svolítið í nýju ljósi. Íslensk náttúra er nefnilega alltaf að koma manni á óvart og Ísland er svo miklu meira heldur Gullfoss, Geysir, Seljalandsfoss og Reynisfjara. Ég reyni að koma því til skila með þessari bók,“ segir Ellert.

„Að sjálfsögðu koma nokkrar náttúruperlur á Austurlandi við sögu enda býr þetta landsvæði yfir mikilli náttúrufegurð og áhugaverðri jarðsögu. Ég er mjög áhugasamur um jarðfræði, sá áhugi hefur mótað mig sem náttúruljósmyndara og viðfangsefnin vel ég oft út frá því“, segir Ellert ennfremur en alls eru í bókinni myndir frá yfir 80 stöðum á landinu.

Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.