Rithöfundalestin 2020: Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur

Benný Sif Ísleifsdóttir sendir nú frá sér sína aðra skáldsögu, Hansdætur. Sögusviðið er vestur á fjörðum þótt Benný Sif sé alin upp á Eskifirði.

„Ég hef lengi haft áhuga á liðnum tíma og hversdagsamstri venjulegs fólks,“ svarar Benný Sif, aðspurð um hví hún hafi skrifað bókina.

Bókin gerist í vestfirsku sjávarpláss í byrjun tuttugustu aldar og segir sögu konu sem á þrjú börn með þremur mönnum. Fyrir henni er óhugsandi að rjúfa mörk stéttar og stöðu en dóttir hennar hefur aðrar hugmyndir.

„Mér þykir heillandi að kynnast lífsháttum genginna kynslóða og reyna að ímynda mér hvernig var að búa við ákveðnar aðstæður á ákveðnum tíma. Hvernig var til dæmis að alast upp í sjávarþorpi í byrjun tuttugustu aldar sem dóttir einstæðrar móður? Hver voru tækifæri fátækra unglingsstelpna til að láta drauma sína rætast? Ef þær þá áttu sér drauma, því draumar kvikna ekki nema einhverjar séu glæðurnar og kafna ef enginn er eldsmaturinn,“ segir Benný Sif.

Hún hefur skrifað fyrir bæði börn og fullorðna en Hansdætur er önnur skáldsaga hennar. Fyrir þá fyrri, Grímu, hlaut Benný Sif Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel awards, árið 2020.

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum. Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.