Skip to main content

Rithöfundalestin 2020: Hugurinn hleypur einatt minn eftir Skáld-Guðnýju

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. nóv 2020 14:28Uppfært 15. des 2020 15:24

Hugurinn einatt hleypur minn er samantekt á kveðskap og ævi Guðnýjar Árnadóttur, eða Skáld-Guðnýjar, sem var uppi á 19. öld.


Skáld-Guðný fæddist að Valþjófsstað í Fljótsdal árið 1813. Hún ólst að miklu leyti upp á Reyðarfirði og í Fáskrúðsfirði en bjó síðan víða á Héraði áður en hún fluttist suður í Lón þar sem hún starfaði lengi sem ljóðsmóðir. Hún andaðist að Hvalnesi í Lóni árið 1893.

Ljóð Guðnýjar hafa varðveist í handriti, sem geymt er á Héraðsskjalasafni Austfirðinga, en fleiri ljóð komu í leitirnar við gerð bókarinnar. Auk ljóða hennar er um þriðjungur bókarinnar ritgerð eftir Helga Hallgrímsson og Rósu Þorsteinsdóttur um ævi Guðnýjar.

„Saga hennar er sérstök og áhugaverð. Hún var alin upp við mikla fátækt og átti að mörgu leyti erfiða ævi en skildi eftir sig mikinn fjársjóð í ljóðum, rímum og lausavísum,“ segir Magnús Stefánsson, formaður Félags ljóðaunnenda á Austurlandi sem gefur bókina út.

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum. Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.