![](/images/stories/news/2016/rullandisnjobolti.jpg)
Rúllandi snjóbolti: Þrír listamenn gefa Djúpavogshreppi verk sín
Mikið verður um dýrðir í Djúpavogshreppi á laugardaginn, samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti/7 verður opnuð klukkan 15:00 í Bræðslunni á Djúpavogi auk þess sem fyrstu tónleikarnir verða haldnir í nýju viðburðarrými Havarí á Karlsstöðum í Berufirði.
Rúllandi snjóbolti er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Chinese European Art Center. Þetta er þriðja árið í röð sem samtímalistasýningin verður sett upp í Bræðslunni á Djúpavogi. Sumarið 2014 var listasýningin haldin í fyrsta sinn og tókst svo vel til hún var sett upp að nýju sumarið 2015.
Verkefnið er því komið til að vera og mun halda áfram að efla samstarf milli skapandi listamanna í Evrópu, Asíu og víðar, sem og veita Austfirðingum og Íslendingum öllum tækifæri til að virða fyrir sér samtímalist fremstu listamanna heimsins á Djúpavogi.
Alls taka 32 listamenn þátt í sýningunni Rúllandi snjóbolta/7, bæði íslenskir og erlendir. Þrír listamannana hafa ákveðið að gefa Djúpavogshreppi verk sín. Það eru þeir Sigurður Guðmundsson, Hrafnkell Sigurðsson og Þór Vigfússon. Verkin verða til sýnis á á sýningunni.
Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra verður sérlegur gestur og opnar sýninguna. Við opnunina verður boðið upp á veitingar úr héraði, í anda Cittaslow. Aðgangur að sýningunni er ókeypis og verður hún opin alla daga frá 3. júlí til 21. ágúst kl. 11-16:00.
Fleira er á döfinni í Djúpavogshreppi því annað kvöld verða tónleikar á hlöðunni á Karlsstöðum í Berufirði. Bændur þar, þau Svavar Pétur Eyrsteinsson og Berglind Häsler, eru nýbúin að umturna fjárhússhlöðunni í viðburðarými og veitingahús.
Til að vígja tónleikarýmið ætla vinirnir Jónas Sigurðsson og Prins Póló að halda tónleika í hlöðunni á laugardagskvöldið klukkan 22.00.