Samfélagsdagur á Austurlandi: Hvað getum við gert fyrir samfélagið okkar?
Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður og Alcoa Fjarðaál efna til samfélagsdags á Austurlandi laugardaginn 26. maí næst komandi. Unnið verður að fjölmörgum sjálfboðaliðaverkefnum í þremur sveitarfélögum og hafa félög og einstaklingar verið hvött til að taka þátt í starfinu.
Forsvarsmönnum dagsins segja að þeim sé ekki kunnugt um að svo mörg sveitarfélög og fyrirtæki hafi áður tekið sig saman um verkefni af þessum toga og lagt undir það heilan dag. Ætlunin er að vinna þessi verkefni á laugardaginn og bjóða síðan upp á útigrill. Það spillir ekki fyrir að það er spáð mjög góðu veðri á Austurlandi þennan dag.
Þau verkefni sem unnið verður að eru margvísleg og of langt mál að telja þau öll upp, en upplýsingar um þau er að finna á heimasíðum sveitarfélaganna. Alcoa Fjarðaál verður einnig með nokkur sjálfboðaliðaverkefni sem starfsmenn fyrirtækisins skipuleggja og eru styrkt af Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum. Hérna eru dæmi um nokkur samfélagsverkefni sem verða unnin á samfélagsdaginn:
Fegrun í kringum sundlaugina á Eskifirði, lagning göngustígs frá Steinasafni Petru niður að höfninni á Stöðvarfirði, gróðursetning og lagfæringar umhverfis strandblakvöllinn í Neskaupsstað. Unnið verður við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum og miðbæinn þar og einnig verður unnið að því að fegra umhverfi íþróttavallarins á Seyðisfirði. Þá ætlar Leikfélagið á Seyðisfirði að vera með sýningu völdum þáttum úr verkinu Pelíkaninn á sjúkrahúsinu þar og við Gálgaklett á Egilsstöðum verður sett upp merking, en þar var Valtýr á grænni treyju veginn. Ungmennafélagar ætla að planta trjám í Hjaltalundi í Hjaltastaðaþinghá. Fjölmörg önnur verkefni eru á dagskrá.