![](/images/stories/news/2017/i_sambandi_stjornurnar.jpg)
Sáu tækifæri á að fara með sýninguna um landið
Leikverkið „Í samhengi við stjörnurnar“ verður sýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld. Sýningin, sem fengið hefur góðra viðtökur, skartar lykilfólki með austfirskar rætur.
„Leikverkið fjallar um töfraspurninguna hvað ef? Það fjallar um samband tveggja einstaklinga sem hittast í grillveislu og við fylgjumst með því sem gerist og hefði getað gerst í þeirra lífi.
Þau hittast þar og ná tengingu. Í einum þræðinum eyða þau ævinni saman,“ segir leikstjórinn Árni Kristjánsson.
Árni er nýútskrifaður úr meistaranámi í leikstjórn úr Bristol Vic leiklistarskólanum í Bretlandi. Milli klukkan 16 og 18 á laugardag stendur hann fyrir vinnustofu sem ber heitið: „Týndu hlekkirnir - einfaldar leiðir til að koma skapandi verkefnum af stað,“ og er gjaldfrjálst.
Hann er ættaður frá Vaðbrekku á Jökuldal en aðalleikkonan, Birgitta Birgisdóttir, er barnabarn Gunnars Gunnarssonar skálds.
Verið er breskt eftir Chris Payne, ungt breskt leikskáld, en það skaut honum upp á stjörnuhimininn. Eftir góðar viðtökur í heimalandinu var það sett upp á Broadway þar sem Jake Gyllenhaal fór með karlhlutverkið.
Árni segir verkið afar krefjandi fyrir leikarana. Þeir séu aðeins tveir og á sjötíu mínútum þurfi þeir að leika öll tilbrigði við lífið.
Verkið var frumsýnt í Tjarnarbíói í vor en var alltaf hannað með það í huga að einfalt væri að ferðast með það. „Við erum með einfalda leikmynd sem hægt er að nýta á margvíslegan hátt. Verkið er lítið í framleiðslu og auðvelt að ferðast með það um þannig við sáum tækifæri á að fara með sýninguna út fyrir höfuðborgarsvæðið.“