![](/images/stories/news/folk/elmar_bragi.jpg)
Seyðfirðingur tilnefndur til Edduverðlauna: Var í skýjunum þegar ég frétti af þessu
Elmar Bragi Einarsson frá Seyðisfirði er meðal þeirra sem tilnefndur eru til Edduverðlaunanna í ár . Tilnefninguna hlýtur hann fyrir tæknibrellur í stuttmyndinni Ljósöld sem var útskriftarverkefni hans úr Margmiðlunarskólanum. Tilnefningin kom honum á óvart.„Ég var í skólanum þegar kærastan mín sendi mér slóð frá Vísi um að ég hefði verið tilnefndur fyrir brellur ársins. Tilnefningin er mér mjög mikils virði enda var ég í skýjunum þegar ég frétti af þessu.“
Elmar Bragi segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á öllu sem tengist kvikmyndum og frá því í grunnskóla fiktað við að búa til stutt myndbrot. „Alltaf þegar það var í boði að taka stuttmynda námskeið á Lunga þá var ég mættur.“
Hann segist hafa alist upp við að horfa á myndir eins og E.T., Indiana Jones, Júragarðinn og Stjörnustríð. Hann kynntist síðan stafrænni vinnslu í gegnum Margmiðlunarskólann. „Þar kynntist ég hópi af frábæru fólki, bæði nemendum og kennurum, sem ýtti enn frekar undir áhuga minn á þessu sviði,“ segir Elmar sem um þessar mundir stundar framhaldsnám í Bournemouth á Englandi.
Ljósöld hefur verið kölluð fyrsta íslenska vísindaskáldsögumyndin. Hún er útskriftarverkefni Elmars Braga úr Margmiðlunarskólanum en hann vann tæknibrellurnar með Jökli Þóri Sigurþórssyni. Guðmundur Garðarsson er höfundur handrits og leikstjóri en hópurinn er stærri og vatt upp á sig. Vinnan tók um fjóra mánuði og voru flestir vinnutímarnir 11-14 tímar að lengd.
Myndin tók þátt í RIFF kvikmyndahátíðinni í haust og er nýbúin á Göteborg Film Festival, stærstu kvikmyndahátíð Norðurlanda.
„LjósÖld er trú, túlkuð í gegnum innri átök manns sem lifir í heimi vonar og ótta. Hlutir og hugsun úr veruleika tákngerast í draumum, sem endurspegla von um bjarta tíð. Ferðin er óður til frelsis,“ segir Elmar þegar hann er beðinn um að lýsa myndinni.