Seyðfirðingar kjósa bæjarfjall
Seyðfirðingar ganga á morgun að kjörborðinu í íbúakosningu um bæjarfjall. Bæjarstjórinn segir mikinn áhuga á skoðanakönnuninni og sitt sýnist hverjum um hvaða fjall eigi að verða fyrir valinu.
„Það var þannig að það barst póstur frá Forlaginu vegna útgáfu bókar þar sem m.a. er fyrirhugað að hafa í lista með bæjarfjöllum og gönguleiðum á þau til að hvetja fólk til að nýta gönguleiðir í nágrenni byggðar,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri um aðdraganda könnunarinnar.
„Af því að hér háttar þannig til að bærinn er umkringdur fjöllum þótti rétt að leita álits bæjarbúa. Það er heilmikill áhugi skoðanakönnuninni og sem eðlilegt er nokkuð skiptar skoðanir.“
Baráttan virðist helst standa á milli Bjólfs og Strandartinds en fleiri fjöll hafa verið nefnd. Kosið verður í Samkaupum milli 10 og 15 á morgun en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur verið á bæjarskrifstofunni í vikunni.