Skip to main content

Síðustu forvöð að sjá listasýningu á heimsmælihvarða

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. ágú 2016 09:49Uppfært 16. ágú 2016 09:53

Samsýningunni Rúllandi snjóbolta/7, Djúpivogur, lýkur eftir rúma viku, en lokadagur hennar verður sunnudaginn 21. ágúst.



Rúllandi snjóbolti er samtímalistasýning sem haldin er á sumrin í Bræðslunni á Djúpavogi. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína, en það er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar listamanns.

„Það hefur verið brjáluð aðsókn frá því sýningin opnaði og afar vel látið af henni, enda er engin stærri samsýning listamanna í gangi á öllu landinu með verkum þvílíks rjóma íslenskra og erlendra samtímalistamanna“ segir Erla Dóra.

Fjölmargir íslenskir listamenn eiga verk á sýningunni, en þeir eru; Berglind Ágústsdóttir, Dagrún Aðalsteinsdóttir, Ragnar Kjartansson, Sigurður Guðmundsson, Magnús Pálsson, Arna Óttarsdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Kristján Guðmundsson, Þór Vigfússon, Hrafnkell Sigurðsson, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Árni Páll Jóhannsson, Ragna Róbertsdóttir, Rúrí, Rúna Þorkelsdóttir, Hekla Dögg, Ólöf Nordal, Finnbogi Pétursson, Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir, Margrét Blöndal og Olga Bergmann.

Einnig taka tíu listamenn við Rijksakademie í Amsterdam í Hollandi þátt í sýningunni, en þeir eru; Juliaan Andeweg, Josefin Arnell, Mercedes Azpilicueta, Pauline Curnier Jardin, Marije Gertenbach, Tamar Harpaz, Christine Moldrickx, Matthijs Munnik, Eva Spierenburg og Robbert Weide.


Flottasta samsýning landsins

„Ég hef talað við þó nokkra sem hafa ferðast hringinn í sumar og segja þeir allir að þetta sé glæsilegasta nútímalistar-samsýning landsins þannig að við höfum bæði fengið flotta umræðu og verðskudaða athygli.

Bæði listamennirnir og gestir eru sammála um að það sé gaman að sýna og skoða verk í öðruvísi rými en „sterilíseruðu“ umhverfi listasafna. Það er algerlega magnað að hér á Djúpavogi finnist listasýning á heimsmælikvarða í gamalli bræðslu og margir okkar gesta vita hreinlega ekki hvert þeir ætla af hrifningu yfir þessu ævintýrakennda samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar. Þetta er auðvitað gífurlega vinna, en hún borgar sig margfalt. Hún eykur fjölbreytni menningarlífs í fjórðungnum og hjálpar okkur að víkka sjóndeildarhringinn. Nú er stuttur tími eftir og ég vil hvetja alla sem eiga eftir að sjá sýninguna að líta við,“ segir Erla Dóra.

Sýningin er opin alla daga milli klukkan 11:00 og 16:00 og aðgangur er ókeypis.

Rúllandi snjóbolti4


Rúllandi snjóbolti1