Skip to main content

Sigurlagið þakklætisvottur til Stöðvarfjarðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2016 11:52Uppfært 04. júl 2016 11:52

Lagið Sumarkveðja eftir tónlistarmanninn Garðar Harðar sigraði lagakeppni sem blásið var til í tengslum við bæjarhátíðina Støð í Stöð sem haldin var á Stöðvarfirði um helgina.



„Ég ætlaði alls ekki að taka þátt aftur, en þegar ekkert lag hafði skilað sér í keppni stuttu áður en fresturinn rann út var farið að gráta í mér og ég lét til leiðast, samdi lag beint inn á upptökutölvuna og datt ekki í hug að það væri nothæft,“ sagði Garðar Harðar, sem einnig átti lagið sem samið var fyrir sömu hátíð fyrir tuttugu árum síðan.

Lag Garðars var þó ekki það eina sem skilaði sér á endanum, en var valið það besta af átta manna dómnefnd.

Garðar segist hafa sent lagið frekar hrátt til keppni.

„Það Vinny og Una í Sköpunarmiðstöðinni tóku við því og gerðu lokaútsetningu sem ég er mjög ánægður með.

Lagið heitir Sumarkveðja og ljóðið samdi ég fyrir tuttugu árum, eftir hátíðina árið 1996. Það er því hálfgerður óður til Stöðvarfjarðar, þakklætisvottur fyrir það hvernig staðurinn hefur farið með mig,“ segir Garðar.

 

Sumarkveðja

Það sumrar undir Súlum

Þar sérðu mína slóð

Í móum og í melum

Margan sungið hef ég óð

Til fjörusands og fjalla

Við fagran Stöðvarfjörð

Heyrt kraftavætti kalla

Og kyrja yfir svörð

Nú blómstrar allt í blíðu

Og börnin hlaupa um kát

Á hafi heljar víðu

Ég horfi á trillubát

Hátt í fjalli fínu

Ég fossa heyri nið

Sem hreyfir hjarta mínu

Hér ég öðlast frið

Garðar Harðar – ágúst 1996