![](/images/stories/news/folk/helgi_seljan_eddan_2017.jpg)
Sjónvarpsmaður ársins annað árið í röð: Gustaði um Panama-skjölin
Reyðfirðingurinn Helgi Seljan var útnefndur sjónvarpsmaður ársins annað árið í röð á Edduhátíðinni sem fram fór á sunnudagskvöld. Hann lýsir síðasta ári sem sérstöku en það litaðist verulega af umfjöllun um Panama-skjölin.
„Þetta er bara skemmtilegt. Óvænt vissulega,“ svarar Helgi þegar hann er spurður út í það hvernig honum hafi þótt að fá verðlaunin annað árið í röð.
Við verðlaunaafhendinguna lýsti hann árinu 2016 sem sérstöku. Hann segist þar hafa verið að vísa til þess hversu mikið hafi verið að gerast. Panama-skjölin stóðu þar upp úr en Helgi og samstarfsfólk hans í Kastljósinu var þar í eldlínunni.
„Það fór ekki framhjá neinum að það gustaði talsvert um þá umfjöllun alla. Sem var út af fyrir sig eðlilegt. En ég held að margir hefðu viljað taka öðruvísi til orða í aðdraganda þeirrar umfjöllunar. Og jafnvel eftir að umfjöllunin hafði birst.
Það var til dæmis sérstakt að stuttu eftir að menntamálaráðherra hafði skilað skýrslu sem taldi höfuðatriði að útvista sem flestum verkefnum Ríkisútvarpsins til einkaaðila, hafi sami ráðherra gert við það athugasemdir í gegnum aðstoðarmann sinn að Kastljós fjallaði um Panama-skjölin í samstarfi við fjölmiðla á einkamarkaði.
Ég held að engum hafi dulist að umfjöllun um þessi mál - rétt eins og mörg önnur - hafi ekki verið öllum þóknanleg. Og, já auðvitað var þrýstingur. Og þegar ég meina þrýstingur á ég við annað og meira en eðlilegar athugasemdir þeirra sem fjallað er um. Það sem ég á við er annað og á ekkert skylt við eðlilegar ábendingar, aðfinnslur eða athugasemdir við fréttaumfjöllun. Það blasti beinlínis við öllum. Margt af því barst okkur svo sem ekki til eyrna fyrr en seinna. Aðalatriðið er enda að það hafði engin áhrif.“
Helgi tileinkaði föður sínum, Jóhanni Sæberg, verðlaunin fyrir að hafa hvatt sig til að sækja um í blaðamennsku hjá Austurglugganum. Helgi starfaði þá sem netagerðarmaður og sagðist hafa verið „ógeðslega lélegur“ sem slíkur þar sem hann væri haldinn hnútablindu.