Sjötugum boðið í afmæliskaffi

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað stóð fyrir kaffisamsæti í tilefni 70 ára afmælis Egilsstaðabæjar síðasta föstudag. Þangað var boðið íbúum sveitarfélagsins, ásamt mökum, sem eru jafn gamlir þorpinu.


Þar rifjaði Arndís Þorvalsdóttir upp að byrjað hefði verið að tala um þéttbýli á Egilsstöðum um aldamótin 1900 á Alþingi um það leyti sem Lagarfljót var brúað þar og samgöngur bötnuðu.

Arndís er uppalin Sunnlendingur en hefur búið á Egilsstöðum í 50 ár. Hún nam mjólkurfræði í Noregi þáði starf hjá mjólkurbúinu á Egilsstöðum að því loknu.

Undir kauptúnið Egilsstaði var tekið land af tveimur bæjum á Völlum og þremur úr Eiðaþinghá.

Það sem kom verulegri hreyfingu á hlutina var þegar læknir fluttist þangað frá Brekku í Fljótsdal árið 1944 eftir að sjúkraskýlið þar brann. Þá var einnig læknir á Hjaltastað en ýmsar staðsetningar höfðu verið ræddar fyrir lækni og sjúkraskýli, meðal annars Fossvellir í Jökulsárhlíð.

Árið 1946 hóf Kaupfélag Héraðsbúa verslun þar. Umsvif þess jukust svo verulega næstu árin á sama tíma og staðurinn stækkaði.

Arndís taldi að eitt einkenna Egilsstaða væri að þar hefði alltaf verið hátt hlutfall fólks á barneignaraldri sem eigi stóran þátt í að íbúum þar hefur fjölgað jafnt og þétt. Fyrstu árin var barnaskólinn í ýmsum húsum þar til hann var byggður á núverandi stað árið 1957.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.