Óskar Harðar fulltrúi Austfirðinga í Músíktilraunum í ár
Vopnfirðingurinn Óskar Harðarsson er fulltrúi Austfirðinga í Músíktilraunum í ár en þær hefjast á sunnudag. Nokkrar af fremstu hljómsveitum Íslendinga hafa komið upp í gegnum keppnina í gegnum tíðina.
Óskar er söngvaskáld, spilar á gítar og syngur með. Í lýsingu á sjálfum sér á vef keppninnar segist hann hafa hafið sólóferil sinn fyrir ári síðan og spili að mestu frumsamda tónlist. Textana semji hann bæði á íslensku og ensku.
Muse, Hvanndalsbræður, Mumford & Sons og Svavar Knút nefnir hann sem sína helstu áhrifavalda. „Þetta flokkast sennilega undir accoustic/folk/country eitthvað, er ekki alveg búinn að átta mig á því ennþá.“
Óskar stígur á stokk á sunnudagskvöld í Silfurbergssal Hörpu en undanúrslitin fara fram í vikunni. Úrslitin fara fram um næstu helgi.