Skemmtileg aðventuhelgi framundan á Austurlandi

Á laugardaginn klukkan 14:00 verður sameiginleg aðventuhátíð Vallanes- og Þingmúlasókna í Þingmúlakirkju en jafnframt er haldið upp á 130 ára afmæli kirkjunnar. Að lokinni samverustund í kirkjunni býður sóknarnefnd í afmæliskaffi í félagsheimilinu á Arnhólsstöðum.



„Kirkja hefur lengi staðið að Þingmúla, undir Múlakolli í Skriðdal. Eins og nafnið gefur til kynna var þar þingstaður fyrr á öldum og Múlasýslur draga nafn sitt af staðnum. Úr sögu staðarins má nefna að einn austfirsku skáldprestanna þjónaði þar, sr. Bjarni Gissurarson (d. 1712). Núverandi kirkja í Þingmúla var vígð fyrsta sunnudag í aðventu árið 1886 af þáverandi sóknarpresti, sr. Páli Pálssyni, en sr. Páll var þekktur fyrir brautryðjandastarf sitt við kennslu heyrnarlausra. Við athöfnina í kirkjunni á laugardag mun sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson, fv. sóknarprestur, segja frá aðstæðum fólks við byggingu kirkjunnar,“ segir Þorgeir Arason sóknarprestur og sóknarnefnd Þingmúlasóknar.


Fjölbreytt og jólaleg tónlistaratriði verða flutt bæði í kirkjunni og kaffinu á laugardaginn. Þær Ragnhildur Elín, Soffía Mjöll og Sara Lind koma fram, svo og hópur ungra stúlkna í söngnámi. Védís Klara Þórðardóttir syngur einsöng. Kór Vallaness og Þingmúla syngur og leiðir almennan söng. Organisti og kórstjóri er Torvald Gjerde.


Jólatónleikar Héraðsdætra
Kvennakórinn Héraðsdætur verður með jólatónleika í Egilsstaðakirkju á laugardaginn klukkan 15:00. Aðgangseyrir 1500 kr, en 1000 kr fyrir eldri borgara og öryrkja. Frítt fyrir börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum. Ekki verður tekið við greiðslukortum. Eftir tónleika hægt að gæða sér á kaffisopa og spjalla. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

Jólabókatrall Bókstafs
Jólabókatrall Bókstafs, þar sem útgáfu nýrra bóka forlagsins verður fagnað, verður haldið í Bókakaffi í Fellabæ á laugardaginn. Höfundar árita og lesa. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Opinn dagur hjá Jökli

Á laugardaginn verður opinn dagur hjá Björgunnarsveitinni Jökull á Hrólfsstöðum í Jökuldal. Sveitin er 30 ára og mun í því tilefni sýna tæki sveitarinnar og kynna störf hennar og nýuppgert húsnæði. Kaffi,kökur og eitthvað fyrir börnin. Gleðin stendur milli klukkan 11:00 og 16:00. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.


Fjallhress á ferðinni
Fjallgönguklúbburinn Fjallhress slakar ekki á yfir vetrarmánuðina og stendur fyrir tindaferð á Sauðabólstind í Stöðvarfirði á laugardaginn. „Magnað útsýni og nú er fínasta færi til fjalla,“ stendur í auglýsingu. Nánar má lesa um ferðina hér.



Myndleikar í Sláturhúsinu
Mikið er um að vera á aðventunni í Sláturhúsinu, en á laugardaginn klukkan 16:00 verður viðburður sem kallast Myndleikar, en þá verða tónleiknar og opnun á myndlistarsýningu þeirra systkina Páls Ivans frá Eiðum og Hrafnsunnu Moss. Nánar má kynna sér dagskrá Sláturhússins hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.