![](/images/stories/news/2016/Þingmúlakirkja.jpg)
Skemmtileg aðventuhelgi framundan á Austurlandi
Á laugardaginn klukkan 14:00 verður sameiginleg aðventuhátíð Vallanes- og Þingmúlasókna í Þingmúlakirkju en jafnframt er haldið upp á 130 ára afmæli kirkjunnar. Að lokinni samverustund í kirkjunni býður sóknarnefnd í afmæliskaffi í félagsheimilinu á Arnhólsstöðum.
„Kirkja hefur lengi staðið að Þingmúla, undir Múlakolli í Skriðdal. Eins og nafnið gefur til kynna var þar þingstaður fyrr á öldum og Múlasýslur draga nafn sitt af staðnum. Úr sögu staðarins má nefna að einn austfirsku skáldprestanna þjónaði þar, sr. Bjarni Gissurarson (d. 1712). Núverandi kirkja í Þingmúla var vígð fyrsta sunnudag í aðventu árið 1886 af þáverandi sóknarpresti, sr. Páli Pálssyni, en sr. Páll var þekktur fyrir brautryðjandastarf sitt við kennslu heyrnarlausra. Við athöfnina í kirkjunni á laugardag mun sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson, fv. sóknarprestur, segja frá aðstæðum fólks við byggingu kirkjunnar,“ segir Þorgeir Arason sóknarprestur og sóknarnefnd Þingmúlasóknar.
Fjölbreytt og jólaleg tónlistaratriði verða flutt bæði í kirkjunni og kaffinu á laugardaginn. Þær Ragnhildur Elín, Soffía Mjöll og Sara Lind koma fram, svo og hópur ungra stúlkna í söngnámi. Védís Klara Þórðardóttir syngur einsöng. Kór Vallaness og Þingmúla syngur og leiðir almennan söng. Organisti og kórstjóri er Torvald Gjerde.
Jólatónleikar Héraðsdætra
Kvennakórinn Héraðsdætur verður með jólatónleika í Egilsstaðakirkju á laugardaginn klukkan 15:00. Aðgangseyrir 1500 kr, en 1000 kr fyrir eldri borgara og öryrkja. Frítt fyrir börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum. Ekki verður tekið við greiðslukortum. Eftir tónleika hægt að gæða sér á kaffisopa og spjalla. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Jólabókatrall Bókstafs
Jólabókatrall Bókstafs, þar sem útgáfu nýrra bóka forlagsins verður fagnað, verður haldið í Bókakaffi í Fellabæ á laugardaginn. Höfundar árita og lesa. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Opinn dagur hjá Jökli
Á laugardaginn verður opinn dagur hjá Björgunnarsveitinni Jökull á Hrólfsstöðum í Jökuldal. Sveitin er 30 ára og mun í því tilefni sýna tæki sveitarinnar og kynna störf hennar og nýuppgert húsnæði. Kaffi,kökur og eitthvað fyrir börnin. Gleðin stendur milli klukkan 11:00 og 16:00. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.
Fjallhress á ferðinni
Fjallgönguklúbburinn Fjallhress slakar ekki á yfir vetrarmánuðina og stendur fyrir tindaferð á Sauðabólstind í Stöðvarfirði á laugardaginn. „Magnað útsýni og nú er fínasta færi til fjalla,“ stendur í auglýsingu. Nánar má lesa um ferðina hér.
Myndleikar í Sláturhúsinu
Mikið er um að vera á aðventunni í Sláturhúsinu, en á laugardaginn klukkan 16:00 verður viðburður sem kallast Myndleikar, en þá verða tónleiknar og opnun á myndlistarsýningu þeirra systkina Páls Ivans frá Eiðum og Hrafnsunnu Moss. Nánar má kynna sér dagskrá Sláturhússins hér.