![](/images/stories/news/umhverfi/anna_i_hruna.jpg)
„Skiptir ekki máli hvar maður býr ef maður hefur það gott í hjartanu“
Á Fáskrúðsfirði er að finna lítið og skemmtilegt leyndarmál, vinnustofuna hennar Önnu Ólafsdóttur í Hruna, en þar dvelur hún löngum stundum og saumar kanínur, verndarengla og margt fleira.
Anna segir Hruni vera sitt athvarfið. „Ég átti ofsalega fínt saumaherbergi heima hjá mér, en þegar herbergin fylltust af börnum varð ég að víkja og fór með saumavélina fram á borðstofuborð, en það var alls ekki að gera sig.
Maðurinn minn fann út að Hruni væri rétti staðurinn. Þetta er athvarfið mitt, ég er alin upp við svona athvarf, pabbi var með athvarf þar sem hann yfirdekkti húsgögn og það var alltaf kallað athvarf, þannig að það orð hefur jákvæða merkingu fyrir mér. Ég grínast oft með það, að borga leigu hérna er í staðinn fyrir að fljúga til Reykjavíkur einu sinni í mánuði og fara til geðlæknis, en ég er mjög góð á geði af því ég fæ að vera í Hruna.“
Gerir ótrúlegustu hluti fyrir gamlan útsaum
Anna hefur alla tíð saumað mikið, bæði í vél og í höndunum, en segist ekki gæti bjargað lífi sínu með prjónaskap.
„Ég endurnýti mikið, mér finnst það rosalega gaman að nota gamalt, gömul föt og gamlan útsaum, ég geri ótrúlegustu hluti fyrir gamlan útsaum, ég væri nánast tilbúin til þess að klífa fjöll fyrir slíkt.“
Kanínur og verndarenglarnir eru stór partur af hennar vinnu en hún gefur þeim öllum nöfn áður en þau halda til nýrra eiganda.
„Kanínurnar hafa fylgt mér í tíu ár en þær fara mikið í fæðinga- og skírnargjafir og ég gef þeim öllum nöfn. Einnig verndarenglarnir. Mér finnst þeir nú oft heldur horðaðir, en ætli þeir verði ekki að vera það til að sitja á skýi,“ segir Anna og skellihlær.
Er hér fyrir fólkið í samfélaginu
Anna segist oft vera spurð að því hvort hún finni ekki fyrir auknum ferðamannastraumi, en segist ekki vera að þessu fyrir túrista sem aðeins koma við í mýflugumynd, heldur fyrir fólkið í samfélaginu.
„Ég finn mjög vel fyrir því að ég á mína föstu kúnna. Ég er ekki með neinn formlegan opnunartíma, en fólk veit af mér og getur bara hringt og ég skýst þá bara niðureftir og opna, ég er þá ekki að gera annað en að hræra kakómalti í glas fyrir herra heimilisins.“
Anna er þekkt fyrir sérlega lífsgleði lýsir af henni hvert sem hún fer. Hún er einnig með gildin sín á hreinu og gefur ekki mikið fyrir þið íslenska lífsgæðakapphlaup og framapot.
„Ef maður fer inn á ja.is og slær inn nafnið mitt, Anna Ólafsdóttir, þá kemur upp titilinn húsmóðir, en það er ekki til neitt fínna en að vera húsmóðir. Ég er kannski bara fædd á vitlausri öld, því þó svo ég taki ekki slátur eða búi til kæfu veit ég ekkert mikilvægara en að geta sinnt börnunum og heimilinu vel en það er bara mitt hlutverk í lífinu. Þegar ég verð sjötug og lít til baka er minn starfsframi að þrír flottir einstaklingar urðu til úr því að ég var húsmóðir.“
Hlutirnir gætu alltaf verið verri
Anna hefur búið víða gegnum tíðina og segir engu máli skipta hvar hún er niðurkomin. „Það skiptir engu máli hvar maður býr ef maður hefur það gott í hjartanu. Ég segi oft að ég hafi troðið mér í kjólinn af henni Pollíönnu um árið og komist bara ekki úr honum aftur.
Hlutirnir gætu alltaf verið verri – en auðvitað gætu þeir stundum verið betri en maður verður bara að gera það besta úr öllu, ég get ekki breytt því sem var í gær og hef ekki hugmynd um hvað morgundagurinn ber í skauti sér, en get valið að gera það besta úr deginum í dag,“ segir Anna að lokum.