Smiðjuhátíð: Meiri virðing fyrir hnífnum sem maður býr til sjálfur
Þau Jóhanna Benediktsdóttir, Sigrún Hallsdóttir, Friðbjörn Steinsson og Halldís Hallsdóttir lögðu á sig ferð sunnan úr Reykjavík fyrir Smiðjuhátíðina. Þau skráðu sig öll í hnífagerð hjá Páli Kristjánssyni sem almennt gengur undir nafninu Palli hnífasmiður.
„Ég hef oft verið hér á sumrin hjá þeim Þóru Ingólfsdóttur og Pétri Kristjánssyni sem standa á bakvið Tækniminjasafnið. Þannig fór ég að horfa á hátíðina úr fjarlægð sem endaði með að ég skráði mig. Ég er búin með eitt eldsmíðanámskeið og er í annað skiptið á hnífanámskeiði hjá Palla,“ segir Sigrún sem leiðir hópinn.
„Það er ótrúlega skemmtilegt að koma hingað á þessa hátíð og mikil tilbreyting frá amstrinu og stressinu í Reykjavík.“ Nú dró hún systur sína, mág og vinkonu með. „Það voru tvö forgangsmál í þessari ferð, að ganga á Snæfellið og fara á Smiðjuhátíðina,“ segir Halldís.
Jóhanna kom með á síðustu stundu. „Ég ætlaði í kvennaferð á Hornstrandir en síðan var ekki næg þátttaka í hana. Ég vissi að vinafólk mitt stefndi á Snæfellið og ég grátbað um að fá að koma með. Ég gekk á það fyrir 13 árum með fjölskyldunni og fannst það heillandi fjall.
Síðan vissi ég ekkert hvað ég var komin út í. Þau voru að spyrja hvað ég ætlaði að læra á Smiðjuhátíðinni og þegar við vorum í mat hjá Þóru og Pétri kvöldið áður en hátíðin byrjaði spurði ég hvort enn væri laust í hnífasmíðina og ég var skráð undir eins.“
Það var hnífur Sigrúnar sem dró hin af stað. „Við erum göngu- og veiðifélagar. Við stundum saman stangveiði og öfunduðust út í Sigrúnu fyrir hnífinn því við vildum eignast okkar eigin veiðihníf.“
Páll kemur með blöðin á staðinn en þátttakendur fá trékubba sem þeir móta skeftið úr og geta fengið skraut á það, svo sem hreindýrshorn. „Maður fyllist stolti þegar maður hefur búið einn svona til. Ég held að maður beri meiri virðingu fyrir hnífnum þegar maður er búinn að búa til einn sjálfur. Það er algjörlega bannað að týna honum eða skilja einhver staðar eftir,“ segir Sigrún.
Nánar er fjallað um Smiðjuhátíðina í Austurglugganum sem kemur út í dag.
Jóhanna, Friðbjörn, Palli, Halldís og Sigrún við smíðabekkinn.