Sýning opnuð um sögu Kaupfélags Héraðsbúa
Sýningin „Ef þú færð það ekki í kaupfélaginu, þá þarftu það ekki“ var opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á föstudag. Á sýningunni gefur að líta muni úr rúmlega 100 ára sögu Kaupfélags Héraðsbúa (KHB) en hún er samstarfsverkefni nemenda í áfanga um sögu Austurlands í Menntaskólanum á Egilsstöðum og Minjasafns Austurlands.
KHB var stofnað á Skeggjastöðum í Fellahreppi á vormánuðum ársins 1909. Miðpunktur verslunarrekstursins var í fyrstu á Reyðarfirði en færðist síðar upp í Egilsstaði og má segja að miðbærinn þar hafi byggst upp utan um umsvif Kaupfélagsins.
Efnahagshrunið haustið 2008 hafði mikil áhrif á KHB þegar hið nýkeypta dótturfyrirtæki Malarvinnslan varð gjaldþrota. Í janúar 2009 varð síðan ljóst að rekstur KHB væri búinn í bili. Með nauðasamningnum tókst að forða kaupfélaginu frá gjaldþroti. Þeim lauk í fyrra en félagið er nær eignalaust í dag.
Á sýninguna hefur verið safnað fjölda muna sem endurspegla hina rúmlega 100 ára sögu félagsins. Margir fyrrverandi starfsmenn þess litu við þegar sýningin var opnuð á þjóðhátíðardaginn.