Sönn vinátta snýst um að deila gleði jafnt sem sorg

Þriðji þátturinn í sjónvarpsþáttaröðinni „Vinátta“ verður sýndur á morgun. Stjórnandi þáttanna segir sjaldan hafa skinið jafn sterkt í gegn hve mikilvæg vináttan er og á tímum sem fólki er meinað að hitta vini sína.

„Við byrjuðum á þáttunum í kringum síðustu áramót og ætluðum að frumsýna þá nú í haust en Covid-setti strik í reikninginn. Á vissan hátt bjargaði faraldurinn okkur samt. Við tókum öll viðtölin í maí og júní. Við náðum öllum þeim viðmælendum sem við vildum því enginn var í útlöndum og allir heima.

Við höfum líka fengið þau viðbrögð að þættir um vináttuna séu þarfir í Covid því fólk getur ekki hist og saknar vina sinna,“ segir Kristborg Bóel Steindórsdóttir, stjórnandi þáttanna.

Kristborg Bóel, sem áður var blaðamaður hjá Austurfrétt/Austurglugganum, stýrði gerð þáttaraðar um ástina sem sýnd var haustið 2019. Hugmyndin að vináttuþáttunum var komin áður en fyrri þættirnir fóru í loftið.

„Mig langaði að halda áfram í sjónvarpi. Hugmyndin kom í maí 2019, vinkona mín fékk hana og ég greip hana. Við sátum á kaffihúsi á sólríkum degi þegar þangað koma þrjár vinkonur, ekki deginum yngri en 85 ára. Þær koma sér fyrir og ein þeirra segir: „Stelpur – eigum við ekki að fá okkur hvítvín?“ og kallar það svo strax til þjónsins. Vinkona mín segir að þetta sé vinátta og ég eigi að gera þætti um þetta, ástin komi og fari en það sé alltaf vináttan sem grípi fólk,“ segir Kristborg Bóel.

Skoða líka skuggahliðar vináttunnar

Þar með var boltinn farinn að rúlla og í gegnum framleiðslufyrirtækið Sagafilm komst hún í kynni við Álfheiði Mörtu Kjartansdóttur, sem leikstýrir þáttunum. Þættirnir eru sýndir í sjónvarpi Símans í línulegri dagskrá á fimmtudagskvöldum en þeir eru allir aðgengilegir fyrir Premium-áskrifendur. Sá fyrsti fór í loftið fyrir tæpum tveimur vikum og á morgun er komið að þeim þriðja.

„Þau viðbrögð sem ég hef fengið eru mjög góð, ég heyri af fólki sem hefur hlegið og grátið. Vináttan er sammannleg, það tengja allir við hana. Á fyrsta fundi vorum við bara með orðið „vinátta“ upp á töflu, eitt orð sem öllum finnst svo sjálfsagt, en svo hlóð það utan á sig.

Viðfangsefnið er vítt og við komumst ekki yfir allt sem við vildum skoða eða jafn djúpt og við vildum í hvert viðfangsefni. Þættirnir eru sex og við tökum fyrir ákveðið hluta vináttunnar í hverjum þeirra. Í fyrsta þætti fórum við í vinasambönd, svo fórum við í vinahópa, veltum fyrir okkur hvort munur sé á kynjunum þegar kemur að vináttu, við skoðum vináttu innan fjölskyldna og hvort mæðgur geti orðið vinkonur eða verði bara mæðgur.

Við skoðum líka skuggahliðar vináttunnar, einelti og vinaleysi. Við ræddum til dæmis við konu sem flutti svo ört að hún náði hvergi að festa rætur, sem er erfitt því það skiptir okkur svo miklu máli að vera hluti af hóp.

Við hittum vinkvennahóp þar sem ein úr hópnum lést upp úr tvítugu. Það var mjög erfitt viðtal. Við ræddum líka við vinkonur sem slitu vinskap um tíma en náðu saman aftur og eru mjög þakklátar fyrir það. Í slíkum kringumstæðum sérðu hve mikilvæg manneskjan er þér.

Sjötti og síðasti þátturinn er eiginlega mitt eftirlæti, þar tökum við þessi atriði öll saman og horfum á vináttuna í samfélaginu. Það snýst allt um samvinnu og vináttu, við komumst ekki í mark nema við gerum það saman. Annars kemst enginn þangað.“

Vinátta mótar samfélagið

En eftir að hafa kafað í og hugsað um vináttu í að verða annað ár, hvernig skilgreinir Kristborg Bóel hugtakið? „Fyrir mér er vinátta lífið sjálft, það snýst um samskipti og tengsl. Það er frumþörf hverrar manneskju að leita að tengslum, við þráum öll að tilheyra hópi og eftir okkur tekið.

Fyrir mér er góður vinur sá sem ég get deilt með gleði og sorg, einhver sem grípur mig, huggar mig, hlær með mér og fagnar og ég geri það sama fyrir hann. Ég lít á nánustu vini mína sem hluta af fjölskyldunni. Vinkonur mínar eru trúlega þær sem þekkja mig allra best og lífið án þeirra er mér algerlega óhugsandi.

Sýningum á Vináttu lýkur um miðjan febrúar. Kristborg kveðst hafa hugmyndir að fleiri sjónvarpsþáttum en ekkert sé enn fast í hendi. „Hjarta mitt slær fyrir að segja sögur í sjónvarpi. Ég naut þess að segja sögur fólks í gegnum blaðaviðtölin en það er eitthvað meira við sjónvarpið. Ég á hugmyndir og vonir um fleiri viðfangsefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.