Sparisjóðurinn býður til jólatónleika

Sparsjóður Austurlands býður til jólatónleika í beinni á sunnudag. Fram kemur margt af færasta tónlistarfólki fjórðungsins.

„Við vonumst til að þetta verði skemmtilegir tónleikar sem allir hafi gaman af og létti fólki lundina,“ segir Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri.

Sparisjóðurinn fagnar í ár 100 ára afmæli sínu og í tengslum við það stóð til að standa fyrir stórtónleikum í Egilsbúð í vor. Af því varð ekki vegna Covid-faraldursins og var þeim þá seinkað fram í september en þá fór allt á sama veg.

Þá fæddist sú hugmynd að breyta forminu og verða tónleikarnir sendir út beint frá Egilsbúð á Facebook-síðu Sparisjóðsins klukkan 17:00 á sunnudag undir yfirskriftinni „Jólin heima.“

Þeir Guðmundur Gíslason og Guðjón Birgir Jóhannsson hafa haldið utan um skipulag tónleikanna ásamt Jóni Hilmari Kárasyni sem er tónlistarstjóri og spilar undir ásamt félögum úr BRJÁN. Meðal þeirra sem syngja á tónleikunum verða Andri Bergmann, Hrafna Hanna, HREiNN, Jóhanna Seljan, Soffía Björgúlfs, Sigurjón Egils, Hjördís Helga Seljan og Þórunn Hyrna. Kynnir verður Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Öflug hefð hefur myndast fyrir mikilfenglegum jólatónleikum í Neskaupstað síðustu ár en Vilhjálmur segir að það sé líka ánægjulegt að geta stutt við bakið á tónlistarfólkinu.

„Það hafa verið mjög flottir jólatónleikar hér í allmörg ár og þeir færst yfir í íþróttahús síðustu ár. Við höfum því aðila hér sem kunna vel að stýra svona tónleikum.

Allir sem koma að tónleikunum fá greitt fyrir vinnu sína. Það er tækifæri til að gera eitthvað fyrir austfirskt tónlistarfólk og skila einhverju til þeirra sem hafa gert svo mikið fyrir okkur í gegnum árin.

Svo vonum við að allir njóti, hvort sem það eru viðskiptavinir, velunnarar eða aðrir sem hafa gaman af jólatónlist.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.