Stiller býr sig undir Seyðisfjörð: 200 manns og götum lokað
Hollívúdd-leikstjórinn Ben Stiller heimsótti Seyðisfjörð í síðustu viku en lið hans er væntanlegt þangað eftir mánaðarmótin til að taka upp nýjustu kvikmynd hans. Von er á miklu umstangi í bænum í tengslum við tökurnar.
Stiller birti mynd frá Seyðisfirði Twitter á fimmtudag. Myndin sem ber yfirskriftina „Seydisfojodur!“ er tekin framan við Hótel Ölduna og horft í áttina að Bláu kirkjunni.
Héraðsfréttablaðið Austurglugginn segir að von sé á um 200 manns til Seyðisfjarðar í tengslum við tökurnar á The Secret Life of Walter Mitty. Tekið verði upp á svæðinu sem myndin sýnir og umferð verði takmörkuð um svæðið á meðan.