Stútfull dagskrá Ormsteitis
Ormsteiti stendur sem hæst þessa dagana en hátíðin er árleg á Héraði. Hátíðin er haldin víðvegar um héraðið og er samstarfsverkefni Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps og fjölmargra fyrirtækja sem gera það kleift að halda hátíðina í þeirri mynd sem hún er í dag.
Hátíðin hófst um síðustu helgi með Möðrudalsgleði en það var Valgeir Guðjónsson sem hélt tónleikana við Sauðána að þessu sinni. Ákveðið var að þjappa viðburðum saman sem haldnir eru á Egilsstöðum frá miðvikudeginum 17. ágúst til laugardagsins 20. ágúst og enda hátíðina eins og áður á Fljótsdalsdeginum sem er sunnudaginn 21. ágúst. Sönglagakeppnin sem byrjað var með á síðasta ári verður hálfgert opnunaratriði Ormsteitis á Egilsstöðum en hún verður miðvikudaginn 17. ágúst í Valaskjálf kl. 20:30. Að þessu sinni bárust hátt í 30 lög en það eru 12 lög sem keppa til úrslita sem Ormsteitislag ársins 2011. Fimmtudagurinn 18. ágúst verður mikið til tileinkaður börnunum en þá fá börnin tækifæri til að taka þátt í markaði. Einnig verður þá árleg fegurðarsamkeppni gæludýra.
Hverfahátíðin verður seinni helgi Ormsteitis að þessu sinni eða 19. ágúst, eftir grillið marsera hverfin hvert af öðru í skrúðgöngu með Karnivalstemmingu upp á Vilhjálmsvöll þar sem lagt er kapp um farandbikarinn góða. Búningakeppnin verður aftur og hvetja skipuleggjendur keppendur til að skrá sig á http://www.ormsteiti.is fyrir kl. 23:59 fimmtudaginn 18. ágúst.
Á laugardaginn verður svo stútfull dagskrá allan daginn á Egilsstöðum. Hún hefst með morgunverði í Egilsstaðavík kl. 9:30 og líkur á hinni einstöku Hreindýraveislu Ormsteitis þar sem grillaður er hreindýrstarfur og svo Nostalgíu dansleik með Á móti Sól í Valaskjálf. Þarna á milli verður svo ótrúlega mikið um að vera á Egilsstöðum. Ungir bændur á Héraði bjóða okkur upp á Bændasælu allan daginn með allskonar spennandi viðburðum, sönglagakeppni barnanna verður í bragganum (skráning á http://www.ormsteiti.is ), Leikhópurinn Lotta stígur á stokk, Háskólalestinn býður upp á ferðalag um undir himingeimsins í Grunnskólanum á Egilsstöðum, keppni verður um bestu villibráðarsúpuna (skráning á http://www.ormsteiti.is), bíla – og hjólasýning verður í miðbænum og svo margt margt margt fleira. Fjölbreyttur markaður verður líka á Egilsstöðum frá fimmtudegi og fram yfir laugardag.
Á sunnudaginn líkur svo Ormsteiti með Fljótsdalsdeginum en þar verða meðal annars tónleikar með Pétri Ben og Eberg. Allar nánari upplýsingar um dagskrá Ormsteitis eru á Ormsteiti.is og á Facebook.