![](/images/stories/news/2013/ormsteiti_hverfaleikar/ormsteiti_hverfahatid_0010_web.jpg)
Styttra Ormsteiti: „Sleppum ekki neinu sem fólk sér eftir“
Hin árlega héraðshátíð Ormsteiti er haldin nú um helgina. Hátíðin er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur og stendur nú aðeins í fimm daga í stað tíu eins og áður en Vala Gestsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir almena ánægju með styttinguna.Vala segir hátíðina fara vel af stað. „Það eru allir í góðum gír, þetta gengur bara voða vel allt saman,“ segir hún og heldur áfram. „Það er allt í fullum gangi. Mikill undirbúningur fyrir karnivalið á morgun. Það eru nýir umsjónarmenn með það og mikið lagt í það.“
Aðspurð segir Vala að almen ánægja sé með styttingu hátíðarinnar og að helstu viðburðir Ormsteitis rúmist vel á 5 dögum. „Fólk hefur kannski ekki alveg úthald í tíu daga hátíð. Svona í sumarlok er í rauninni alveg nóg að hafa þetta fimm daga, ég held að við séum ekki að sleppa neinu sem fólk sér eftir. Þetta er aðeins með breyttu sniði en ég held að þetta sé bara fínt.“
Í gær var Ormsteitið sett formlega í markaðstjaldi við Nettó sem opið verður alla hátíðina. Þetta var í fyrsta skipti sem haldin var setningarathöfn á hátíðinni „Þetta var roslega gaman, það var vel mætt. Við vorum með tónlist og veitingar í markaðstjaldinu og opnuðum bæði markaðinn og hátíðina,“ segir Vala.
Í dag er hugað að eldri og yngri kynslóðinni með púttmóti eldriborgara og ungmennahátíð við Sláturhúsið þar sem ungir listamenn koma fram. En í kvöld bjóða Fellbæingar öllum upp á heimalagaða súpu.
Dagskráin verður svo fjölbreytt um helgina, morgundagurinn er helgaður hverfagrilli, karnivali og hverfaleikum. Á laugardaginn verður barna- og fjölskylduhátíð á svæðinu innan við skattstofuna, stórtónleikar í Kornskálanum og Nostalgíudansleikur í Valaskjálf. Sunnudagurinn verður svo helgaður Fljótsdalnum og fer dagskráin fram í þar og í Vallanesi.