![](/images/stories/news/2016/tombolustelpur.jpg)
„Sumir kaupa alltaf nýtt og nýtt og setja gamla dótið í geymsluna“
Þær Manda Ómarsdóttir og Heiðdís Sara Ásgeirsdóttir á Reyðarfirði hafa á rúmu ári safnað tæpum 160 þúsnd krónum fyrir Krabbameinsfélag Austfjarða.
Manda og Heiðdís Sara, sem báðar eru níu ára, hafa haldið tvær tombólur upp á síðkastið, þá fyrri á Bryggjuhátíðnni síðasta sumar og þá síðari á Dögum myrkurs í nóvember.
„Okkur gengur alltaf mjög vel að safna og fengum svo mikið dót síðast að miðarnir kláruðust ekki einu sinni og við eigum ennþá dót,“ segir Manda, en þær fengu alls 282 hluti í söfnuninni.
„Við fáum allskonar dót, bangsa, kertastjaka, öskubakka, bækur og fleira. Sumt fólk á mjög mikið af dóti en aðrir ekki eins mikið,“ segir Heiðdís.
„Sumir kaupa alltaf nýtt og nýtt og setja gamla dótið í geymsluna og bíða bara eftir að einhver banki upp á og biðji um tombóludót,“ segir Manda.
Þær stöllur segja fólk almennt ánægt með vinninga sem það fær. „Nema einn, hann fékk nefnilega fullt af hárdóti, sem hann vildi alls ekki,“ segir Manda.
Það munar um minna og þær Manda og Heiðdís Sara afhentu rúmar 86 þúsund krónur til Krabbameinsfélags Austfjarða í gær.
„Í fyrra skiptið fengum við 72 þúsund en 86.732 krónur núna. Við vitum ekki hvað þau ætla að gera með peninginn, en hann er nýttur til góðs málefnis,“ segir Manda og segir að þær vinkonurnar séu þegar farnar að safna dóti fyrir þriðju tombóluna sem þær ætla að halda í sumar.