Skip to main content

Sviptingar í sveitastjórnum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jan 2010 14:32Uppfært 08. jan 2016 19:21

Enginn fulltrúa Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar gefur kost á sér til áframhaldandi setu eftir kosningarnar í vor. Hreyfing er einnig á bæjarfulltrúum á Fljótsdalshéraði.

 

Stærstu tíðindin af Fjarðalistanum er brotthvarf Smára Geirssonar sem setið hefur í bæjarstjórn samfellt frá árinu 1982. Í nýjasta tölublaði Austurgluggans er greint frá því að Smári ætli í sagnfræðinám í Noregi.

Hinir bæjarfulltrúarnir þrír, Díana Mjöll Sveinsdóttir, Guðmundur R. Gíslason og Sigrún Birna Björnsdóttir eru einnig öll á útleið. Ekkert þeirra útilokar frekari stjórnmálaafskipti síðar.

Hjá Sjálfstæðisflokknum á Fljótsdalshéraði hefur Þráinn Lárusson ákveðið að hætta og sögur eru á kreiki um að Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, haldi ekki áfram.

Oddviti Héraðslistans í seinustu kosningum, Baldur Pálsson, formaður bæjarráðs ætlar ekki að halda áfram. Héraðslistinn undirbýr framboð til sveitarstjórnar í vor og málefnavinna er farin í gang.

Björn Ármann Ólafsson, oddviti Framsóknarflokksins á Héraði, er sömuleiðis hættur. Framboðsfrestur fyrir prófkjör flokksins rennur út fyrstu helgina í febrúar en kosið verður fyrstu helgina í mars. Ekki er heldur ljóst hvað hinir bæjarfulltrúarnir tveir, Jónas Guðmundsson og Anna Sigríður Karlsdóttir, gera.

Sögur eru einnig á kreiki um að Gunnar Jónsson og Sigvaldi Ragnarsson, Á-listanum, fari út. Bæjarstjórinn, Eiríkur Björn Björgvinsson, er sagður hugsa sér til hreyfings og hefur Akureyri verið nefnd sem líklegur áfangastaður hans.