„Svolítið eins og að eignast nýtt barn“

Ert'ekki að djóka, Kolfinna? er heiti á nýrri unglingabók eftir Hrönn Reynisdóttur frá Eskifirði, en hún hefur verið í fjórða til fimmta sæti á bókalista Eymundsson yfir unglingabækur. 

 

 

Ert'ekki að djóka, Kolfinna? er fyrsta bók höfundar og þar segir frá Kolfinnu, 16 ára stelpu sem er send til ömmu sinnar á Eskifirði eftir að skóla lýkur um vorið. Hún hefur ekki miklar væntingar til lífsins á þeim stað en margt á svo sannarlega eftir að koma henni og öðrum á óvart.


„Það er nú eiginlega þannig að ég skrifaði þessa bók fyrir sjö árum vegna þess að hún var að yfirtaka allt pláss í kollinum á mér. Ég var þá í ritaranámi og hafði ekkert pláss fyrir svona skáldskap í hausnum. Ég var alls ekki viss um að það yrði nokkuð meira úr þessu en ég þurfti í það minnsta að koma henni úr kollinum á mér,“ segir Hrönn.



Kolfinna tranaði sér fram

Aðspurð hvaðan hún sæki innblástur segir Hrönn: „Það er nú bara þannig með hana Kolfinnu að hún er mjög ákveðin, ég þurfti engan innblástur, hún tranaði sér bara fram. Ég lenti reyndar í því þrisvar sinnum meðan ég var að skrifa bókina að atburðir sem svipaði mjög til þeirra er ég skrifaði um gerðust. Ég fór alveg í flækju og sagði við manninn minn að ég ætti bara að hætta þessu. Hann benti mér hins vegar á að láta aðalpersónuna vinna nokkrar millur í lottói og gá hvort það gerðist ekki bara hjá okkur. Ég gerði það nú samt ekki. Fjórði atburðurinn var sá að ég var rétt búin að fá leyfi fyrir birtingu myndarinnar af völvuleiðinu þegar mynd kom á Facebook af því stórskemmdu. Ég vona að við í íbúasamtökunum tökum okkur saman og lögum það.“


Stórskemmtilegt ferli

Hvernig er sú tilfinning að sjá hugarfóstrið sitt lifna við og fá bókina í hendur? „Þetta hefur allt gengið mjög hratt fyrir sig þar sem við, ég og skvísurnar í Bókstaf byrjuðum ekki að spjalla saman um þessa bók fyrr en um miðjan janúar á þessu ári. Þetta er svolítið eins og að eignast nýtt barn. Maður er pínu smeykur við að láta fólk sjá það, ef því skyldi nú ekki finnast barnið mitt fallegt. Enn sem komið er hefur þetta bara verið gaman og ég hef líka verið með svo frábæru fólki, bæði Sillu og þeim í Bókstaf og eins öðrum höfundum sem hafa verið að lesa og kynna sínar bækur. Þetta ferli hefur verið stórskemmtilegt og þær túttur í Bókstaf eru sko nýjustu hetjurnar mínar.“

Hrönn segist vera með kollinn fullan af hugmyndum. „Ég er langt komin með framhald af Kolfinnu og svo verður bara að koma í ljós hvort landanum falli Kolfinna hin fyrri vel í geð, þá gæti sú næsta jafnvel ratað í búðir síðar.“

Bókstafur gefur bókina út og kápumynd hannaði Perla Sigurðardóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.