![](/images/stories/news/folk/alexander_ingi_jonsson_gb_feb17_web.jpg)
Syngur og dansar í sturtu
Lið Menntaskólans á Egilsstöðum er komið í átta liða úrslit spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur og keppa við Flensborgarskóla í sjónvarpssal þann 24. febrúar. Fyrirliði liðs ME, Alexander Ingi Jónsson, er í yfirheyrslu vikunnar.
Alexander Ingi hefur verið viðloðandi keppnina síðan 2012 og var einnig fyrirliði árið 2013 og 2016.
Aðspurður undirbúning og markmið segir Alexander Ingi; „Undirbúningurinn er frekar einfaldur, við svörum hraðaspurningum, tökum æfingakeppnir og skerpum á okkar sérsviðum. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná eins langt og við getum. Við förum þó í allar keppnir eins og það sé hver önnur æfing, við erum bara mætt til að svara spurningum,“ segir Alexander Ingi sem hitar hér upp með því að svara nokkrum laufléttum.
Fullt nafn: Alexander Ingi Jónsson.
Aldur: 23 ára.
Starf: Nemi.
Maki: Enginn.
Börn: Engin.
Mesta undur veraldar? Hádegisfjallið, fallegasta fjall í heimi.
Hver er þinn helsti kostur? Gott minni, það hjálpar allavega mikið í Gettu betur.
Hver er þinn helsti ókostur? Á það til að tala of mikið.
Uppáhalds matur? Sænskar kjötbollur.
Hvað finnst þér um þorramat? Ekki mikill áhugamaður, viðurkenni það.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Á mér enga sérstaka fyrirmynd.
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að vera ósýnilegur.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Nelson Mandela.
Hver væri titilinn á ævisögunni þinni? Alexander: Maðurinn á bakvið gleraugun.
Syngur þú í sturtu? Já, undantekningalaust. Dansa líka.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Heimsfriður, einfalt.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Þar sem ég hef aldrei farið til útlanda þá hlýtur það að vera efst á listanum. Pissa á MR er annað, sem ég vonast til að strika af listanum þegar við förum suður – og ætli það sé svo ekki bara að útskrifast.
Duldir hæfileikar? Get skrifað öll löndin í heiminum upp eftir korti á minna en 15 mínútum.
Hvað bræðir þig? Lítil, krúttleg börn.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Þetta er spurning sem ég er búinn að reyna að finna svarið við mjög lengi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Þegar ég var spurður að því á fyrstu árshátíðinni minni í grunnskóla sagðist ég ætla að verða íþróttakennari, en íþróttakennarinn minn sagði mér að segja það.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Coca Cola.
Hvert er þitt sérsvið í Gettu betur? Er sterkur í landafræði, og nokkuð góður með ártöl og dagsetningar líka.
Mesta afrek? Án efa að komast í átta liða úrslit Gettu betur.
Hverja væri sætast að vinna í úrslitaviðureign Gettu betur? Menntaskólann í Reykjavík að sjálfsögðu.