Sýning annarrar þáttaraðar Fortitude hefst í kvöld: Ísland er Hawaii norðursins

Breska sjónvarpsstöðin Sky sýnir í kvöld fyrsta þáttinn af annarri seríu spennuþáttanna Fortitude sem að mestu leyti eru teknir upp á Reyðarfirði. Nokkuð er um nýja leikara í seríunni enda týndu hinir tölunni einn af öðrum í þeirri fyrri. Þeir virðast hafa aðlagast landinu fljótt.


„Það eru allir á nálum yfir hvort þeir lifi af, en það er gaman að sjá hvað gerist. Lamast ég? Blindast ég? Það er aldrei að vita,“ segir Dennis Quaid í viðtali við vefinn What‘s on TV.

Quaid er enn af nýju leikurunum í Fortitude og leikur þar skapstóran sjómann að nafni Micheal Lennox. Hann segist hafa laðast að þáttunum því Stanley Tucci lék í þeim og hafa heillast að umhverfinu sem hann sá.

„Það var gaman að fara á snjósleðana og heilan dag á sjó á togara. Ísland er ótrúlega töfrandi staður, eins og Hawaii í Norðurhafi. Það er svo fallegt, eins og að vera komin á aðra plánetu.“

Michael er einnig gamall vinur Hildar Ödegaard, bæjarstýru sem leikin er af dönsku leikkonunni Sofie Gråböl sem var undir miklum þrýstingi í síðustu þáttaröð þegar líkin hrönnuðust upp.

Í aðdraganda nýju þáttaraðarinnar hefur Fortitude verið kynntur sem ferðamannastaður, meðal annars með vefnum visitfortitude.com. Vandræði hennar eru því síst minni þegar nýr glæpur skekur samfélagið. Við bætist barátta við embættismann sem vill fylgja öllum reglum og helst loka Fortitude.

„Hún telur sig vera komna á þann stað að mestu vandræðin séu að baki og hún hafi nú tækifæri til að líta yfir farinn veg og hugsa sig gang. Ég myndi segja að Hildur geri sér grein fyrir að hún er ekki hamingjusöm í nýju þáttunum,“ segir Sofie á vefnum TheVersion.com.

En þótt Hildur sé ekki hamingjusöm hefur Sofie notið þess að taka upp þættina. „Allir leikararnir eru á sama hóteli á einangruðum stað sem þjappar okkur saman. Við förum í langa göngutúra, borðum saman. Þetta skapar bæði liðsanda en líka tengingu við staðinn.

Það er allt annað að vera í myndveri í London og þurfa að ímynda sér umhverfið. Þegar maður er kominn í þetta stórfallega, hrjúfa landslag ýtir það undir tilfinninguna sem Fortitude snýst um í raun.“

Fyrsti þátturinn var forsýndur þegar tilnefningar til BAFTA verðlaunanna voru kynntar fyrir tveimur vikum. Hann kemur fyrir almenningssjónir í Bretlandi í kvöld. Hér sýnir RÚV eftir slétta viku.






Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.