„Það besta sem þú getur haft á ferilskránni“
Í janúar hefur fyrsti hópur nám í Fab Academy á Hornafirði. Fab Academy er í tengslum við Fab Lab-smiðjurnar sem er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Um alþjóðlegt nám í stafrænni framleiðslu er að ræða þar sem áhersla er lögð á að læra með því að framkvæma hlutina.
Markmiðið með Fab Lab-smiðjunum er að hvetja einstaklinga og frumkvöðla til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, skapa tækifæri til vinnu við frumgerðasmíð og vöruþróun með því að bjóða upp á aðgang að stafrænum framleiðslutækjum og búnaði af ýmsum toga.
Fab Lab krossar margar greinar
Tvær Fab Lab-smiðjur eru á austanverðu landinu, annars vegar í Neskaupstað og hins vegar í Vöruhúsinu á Hornafirði. Vilhjálmur Magnússon er forstöðumaður Fab Lab-smiðju Hornafjarðar og forstöðumaður Vöruhússins sem upphaflega hýsti KASK (Kaupfélag Austur-Skaftfellinga) en er nú miðstöð list- og verkgreina á staðnum.
„Við erum með kennslu í frumkvöðlafræði og nýsköpun alveg niður í fimmta bekk grunnskóla og upp í framhaldsskóla þannig að það er samfella í náminu. Einnig erum við með sérstaka opnunartíma fyrir almenning en þegar einstaklingarnir hafa náð tökum á viðfangsefninu geta þeir verið hér nánast hvenær sem er.
Það sem er svo skemmtilegt er að þetta krossar svo margar greinar en mikið af fólki er í húsinu, svo sem tónlistarmenn, ljósmyndarar og fatahönnuðir og segja má að Fab Lab-smiðjan sé eins og hjartað eða miðjan í húsinu, suðupottur sköpunar. Ferðaþjónustan er sívaxandi grein og ferðaþjónustuaðilar nýta sér tæknina í markaðssetningu og búa til dæmis til skilti og dreifibréf. Það er einnig gaman að fylgjst með fólki sem fer á námskeið í Fab Lab og stofnar fyrirtæki í kjölfarið eða skráir sig í Listaháskólann.“
Læra um allt sem gerist í smiðjunum
Námið hefst í janúar og stendur í sex mánuði. Inntak þess snýr að stafrænni framleiðslu – hvernig einstaklingar geta hannað og framleitt næstum hvað sem er hafi þeir aðgang að tækjum og búnaði eins og er til staðar í öllum Fab Lab-smiðjum. Nemendur í Fab Academy öðlast hæfni á mikilvægum sviðum sem tengjast tölvum, rafeindatækni, forritun og stafrænni framleiðslu en þekking á þessum sviðum nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.
„Menn læra um allt sem gerist i Fab Lab-smiðjunum en nemendur koma saman á miðvikudögum og horfa á fyrirlestur og fá verkefni sem þeir hafa viku til að leysa þegar það næsta er tekið fyrir. Í upphafi námsins þurfa nemendur að ákveða lokaverkefni sitt.“
Vilhjálmur auglýsir hér með eftir áhugasömum nemendum. „Það er einn búinn að skrá sig eins og staðan er í dag. Nemendur eru ekki bundnir við að vera hér á Hornafirði, þurfa aðeins að hafa óheftan aðgang að smiðju.“
Vilhjálmur á ekki í vandræðum með að svara því af hverju fólk ætti að hugsa um nám í Fab Academy sem valkost: „Þetta er það besta sem þú getur haft á ferilskránni þinni, diplómanám sem sýnir mikla færni á mörgun sviðum. Ef þú hefur gaman að hönnun þá er þetta engin spurning og alveg brilljant.“

