„Það sem er sorgin okkar er gleðin okkar“

„Mér finnst líka þegar ég horfi til baka að hún hafi á einhvern hátt vitað að hún fengi ekki úthlutuðum löngum tíma í þessari jarðvist en bæði var hún mjög ævintýragjörn og alltaf að flýta sér,“ segir Álfheiður Hjaltadóttir frá Reyðarfirði sem var í opnuviðtali Austurgluggans fyrir stuttu.



Álfheiður og Kristján eignuðust fimm dætur og fjórar þeirra voru komnar í heiminn þegar Álfheiður var aðeins 22 ára gömul. Anna Bára var þriðja í röðinni en lést úr heilablóðfalli á heimili sínu úti í París árið 1992, aðeins 26 ára gömul frá fjögurra ára gömlum syni sínum, Kristjáni Óla.

Álfheiður segir Önnu Báru hafa verið afar ólíka systrum sínum bæði í útliti og fasi. „Hún var ljóshærð með brún augu en allar hinar voru dökkar yfirlitum.

Þegar hún var 24 ára gömul og búsett úti í París skrifaði hún bréf til systur sinnar þar sem hún segir að sér þyki hún ekki vera að gera nógu mikið með líf sitt, eigi aðeins eitt barn og finnst tíminn vera að hlaupa frá sér.“

Álfheiður segir að Anna Bára hafi verið mjög ung þegar hún vildi fara að ferðast um og skoða heiminn en hún var aðeins 17 ára þegar hún fór sem aupair til Boston og flakkaði ein um Bandaríkin. Hún vann á Norrænu í nokkur sumur en flutti til Frakklands árið 1990 þar sem hún hóf sambúð með barnsföður sínum Pascal.


Trúin hjálpaði í erfiðum aðstæðum

„Andlát hennar kom algerlega óvænt en hún hafði verið með höfuðverk um tíma og var búin að fara til augnlæknis og í einhverjar myndatökur. Banamein hennar var æðagúlpur sem sprakk í höfðinu á henni. Fyrir einhverja einskæra tilviljun var sonur hennar staddur hjá okkur þegar hún dó en vetrarfrí var í leikskólanum og mamma hans bað okkur um að hafa hann á meðan. Á þessum tíma var París langt í burtu og aðalsamskipti okkar gegnum fax en það er með ólíkindum hve heimurinn hefur skroppið saman síðan þá.“

Álfheiður segir trúna hafa hjálpað sér mikið í þessum erfiðu aðstæðum. „Auðvitað fór ég í gegnum allt sorgarferlið og reiðin beindist aðallega að því hvað væri verið að leggja á lítið barn að taka móður þess frá því. Drengurinn hennar var og hefur alltaf verið alger gullmoli og ljósið í lífi okkar. Ég fann oft mjög vel fyrir nærveru hennar fyrstu árin eftir að hún lést, sérstaklega þegar ég var ein að keyra, eins og á Fagradalnum, en þá gat ég meira að segja sagt mér hvernig hún var klædd.“

Álfheiður segir sig oft upplifa þá örþunnu línu sem liggur milli gleði og sorgar. „Þetta er svo nátengt en ég hef aldrei upplifað það eins sterkt og í sumar þegar Kristján Óli gifti sig. Þarna var hann en ekki mamma hans, en það sem er sorgin okkar er gleðin okkar. Og hvað er þarna að baki annað en kærleikurinn.

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað það er að segja þegar það talar um að best sé að leggja niður kirkjur og embætti presta en það starf fer ekki hátt en er ómetanlegt í aðstæðum sem þessum. Sumir tala um að ekki sé hægt að trúa á eitthvað sem ekki er sýnilegt en ég segi þá bara á móti að ekki sjáum við vindinn en finnum vel fyrir honum.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Austurglugganum sem kom út þann 9. september síðastliðinn. 

IMG 5224

Álfheiður og Kristján með stúlknahópinn sinn. 

Barnahópurinn

Afkomendahópurinn hefur heldur betur margfaldast með árunum, Álfheiður og Kristján með allan skarann sinn síðastliðið sumar. 

Forsíðuljósmynd: Kolbrún Kristjánsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.