![](/images/stories/news/folk/Sonja_Einarsdóttir2.jpg)
„Það verður alvöru jólastemmning í Molanum í dag“
„Ungmennin leggja allt í að undirbúa fyrir þau málefni sem þau taka fyrir og sér maður hversu mikill eldmóður er að safna fyrir sínu málefni, þau eru svo sannarlega frábær,“ segir Sonja Einarsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Zveskunnar á Reyðarfirði, en mikið líf verður í Molanum á Reyðarfirði í dag þegar ungmennin bjóða upp piparkökuhús til styrktar ýmsum málefnum. Sonja er í yfirheyrslu vikunnar.
Góðgerðarvika félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð sem farið var af stað með í fyrra. „Þá var það aðeins minna í sniðum og Zveskjan á Reyðarfirði sá um verkefnið, sem hugsað sem vettvangur fyrir margþætt markmið og fyriri ungmenni til að skoða og velta fyrir sér þeim fjölbreytta veruleika sem við búum við og með því eiga umræður við jafnaldra sína um hin og þessi málefni sem liggja þeim á hjarta.
Eitt skemmtilegasta starf sem hún hefur unnið
Sonja segir að starf sitt við félagsmiðstöðina sé eitt skemmtilegasta starf sem hún hefur unnið. „Ég sé um að skipuleggja og halda utan um tómstunda- og félagsstarf fyrir unglinga á aldrinum 10-16 ára, einnig reyni ég að bjóða upp á starf fyrir 16 ára og eldri en verið er að vinna að því að byggja upp virka starfsemi fyrir þann aldurshóp. Ég kem líka að skipulagningu stórra viðburða fyrir unglinga í Fjarðabyggð og á Austurlandi samstarfsfélögum mínum.
Einnig höfum við verið að leika okkur svolítið með alþjóðleg verkefni þar sem ungt fólk úr Evrópu kemur saman og vinnur að ákveðnum markmiðum sem tengjast ungmennastarfi og höfum við sérstaklega einbeitt mér að tómstundum og félagsstarfi fyrir ungt fólk á dreifbýlum svæðum.“
Viðburðurinn verður í Molanum milli klukkan 17:00-19:00. „Þar kynna ungmennin þau málefni sem þau hafa kosið að safna fyrir, auk þess sem boðið verður uppá tónlistaratriði, piparkökur og kakó. Í lokin verða piparkökuhúsin svo seld á uppboði til styrktar málefnunum – það verður alvöru jólastemmning í Molanum í dag.“
Fullt nafn: Sonja Einarsdóttir.
Aldur: 29.
Starf: Forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Zveskjunni á Reyðarfirði.
Maki: Davíð Brynjar Sigurjónsson.
Börn: Hekla Bjartey, 6 ára og Jökull Ísar, 3 ára.
Mesta undur veraldar? Bara jörðin eiginlega í heild sinni, náttúran og norðurljósin.
Hvað er í töskunni þinni? Seðlaveski, dagbók og varalitur.
Ef þú vilt gera vel við þig? Fara eitthvað fínt út að borða, sérstaklega á nýja staði.
Kaffi eða te? Team Kaffi.
Hvað er í jólamatinn? Nautasteik, mjög líklega Wellington.
Jólahefðir? Keyra út pakka á aðfangadagsmorgun og auðvitað jólabarnatíminn með gríslingunum og svo fáum við oft gesti í hádeginu þar sem boðið er upp á graflax, paté og annað gúmmelaði. Svo er bara jólamaturinn og opnað pakka langt fram eftir kvöldi. Mjög afslappaður náttfata-jóladagur og hangikjöt um kvöldið. Auðvitað er maður bara mikið að hafa það gott með stórfjölskyldunni.
Hvað langar þig að fá í jólagjöf? Úff alltof margt, efst á listanum eru snyrtivörur frá Kylie Cosmetics.
Hvað eru jólin fyrir þér? Samvera og skemmtilegheit með fjölskyldunni, notalegheit og rosa góður matur alla daga.
Hver er þinn helsti kostur? Bjartsýni.
Hver er þinn helsti ókostur? Hugsa um og reyna að gera of margt í einu.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Út á sveit við Eskifjörð.
Hvernig líta kosífötin þín út? Kósí röndóttar náttbuxur og einhver mega þægilegur bolur.
Hvað bræðir þig? Þegar börnin sýna hvað þau elska mann heitt, með orðum og gjörðum.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Pizza.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Vaska upp, finnst það bara hundleiðinlegt.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Fara á Coldplay tónleika, heimsækja sem flest lönd í heiminum (komin ágætlega á veg með það) og gera eitthvað tengt jaðarsporti, fallhlífastökk eða eitthvað álíka.
Duldir hæfileikar? Veit ekki hvort það eru duldir hæfileikar en ég er alveg ágæt í ýmiskonar list og hönnun, bæði að mála og hönnun í tölvunni. Ég er líka með svolitla músík í blóðinu og hef verið að endurvekja tónlistarnám frá yngri árum.
Mesta afrek? Börnin mín, kannski klisja en þau eru það þessar elskur og svo er ég ákaflega stolt af afrekum mínum í náminu.
Draumastaður í heiminum? Grísku eyjarnar.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma mín, sú fallega kona og hugdjarfa kona.
Uppáhalds jólalag? The Christmas song með Nat King Cole.
Settir þú þér áramótaheit fyrir árið 2016? Já mjög óformleg áramótaheit, en ég vildi prufa nýja hluti og fara út úr þægindahringnum sem ég gerði og það var frábært, gaf mér mikið bæði á persónulegan og faglegan hátt.
Ætlar þú að setja þér áramótaheit fyrir árið 2017? Já fyrst og fremst fyrri part ársins, að vera mjög skipulögð þar sem ég er að fara að gera lokaverkefni í náminu mínu og þarf mikið á því að halda. Svo ætla ég að setja mér þau markmið að gefa mér tíma til að vera ævintýraleg, hafa gaman og njóta með öllu mínu fólki.