„Það verður fast skotið í ár“

Þorrablótið á Reyðarfirði er nú haldið í 95. skipti og eftir því sem Austurglugginn kemst næst er það eitt elsta samfellda blót landsins.



Hjónin Ingunn Karitas Indriðadóttir og Jóhann Sæberg eru nefndarformenn að þessu sinni en Hólmgrímur Bragason leikstýrir.

Ingunn er ekki ókunn blótsundirbúningi en hún og Jóhann voru áður í nefnd árið 1996 og sjálf leikstýrði hún annálnum um tíu ára skeið, frá 1999 til 2009.

Blótið var fært úr Félagslundi yfir í íþróttahúsið árið 2007 þegar aðsóknin var orðin of mikil til að félagsheimilið bæri fjöldann.


Óskrifuð lög að allir fari á svið

Ingunn segir annálinn vera í revíuformi. „Annállinn er eingöngu fluttur í leikþáttum og söng, auk þess sem sögumaður kemur fyrir á einstaka stað.

Hópurinn verður mjög þéttur og innan hans myndast mikil tengsl á undirbúningstímabilinu. Allir í nefndinni fara á svið, það eru bara óskrifuð lög hér á Reyðarfirði, enginn reynir að komast undan því og allir eru til – en það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við þetta.

Sumir hafa aldrei stigið á svið en fara svo og syngja og leika og koma sjálfum sér og öðrum gersamlega á óvart.

Við nýtum okkur tæknina, bæði á blótinu sjálfu og í undirbúningi þess. Við erum búin að setja inn eitt „pepp-myndband“ á Facebooksíðu blótsins í vikunni og hendum inn næsta toppi fljótlega.“


Kynslóðirnar skemmta sér saman

Aðspurð hvað það sé við þorrablótin sem fái fólk til þess að hlakka til svo vikum skipti segir Ingunn:

„Í fyrsta lagi er orðið lítið um skemmtanahald í bænum, sú dansleikjamenning sem var er alveg búin að vera og stærstur hluti bæjarbúa fer ekki á barinn um helgar. Það koma flestir á blót og skemmta sér saman, öllum finnst skemmtilegt og ekki síst unga fólkinu en það er skemmtilegt að kynslóðirnar skemmti sér saman. Íþróttahúsið rúmar um 360 manns og mér sýnist á öllu að það verði þétt setið í ár.

Í öðru lagi held ég að það sé þetta grín, að geta séð spaugilegu hliðina á því sem gerist í bænum yfir árið.

Fólk er auðvitað misviðkvæmt fyrir því að vera tekið fyrir en það er nú einu sinni þannig að sömu einstaklingar ætlast til þess að annállinn sé beittur og sárnar svo svakalega þegar það sjálft birtist á sviðinu.

Svo eru aðrir sem verða grútspældir ef þeir eru ekki teknir til umfjöllunar en er það einmitt ekki töluverður heiður, það sýnir aðeins fram á að viðkomandi sé sýnilegur í samfélaginu. Okkur er ekkert óviðkomandi, ekki einu sinni munkarnir á Kollaleiru og ég get upplýst að það verður fast skotið í ár,“ segir Ingunn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.