Skip to main content

Talin meðal 25 efnilegustu fatahönnuða heims: Of heimakær til að vera lengi í burtu í einu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. nóv 2011 11:49Uppfært 08. jan 2016 19:22

sigrun_halla_web.jpgHin 25 ára gamla Egilsstaðamær, Sigrún Halla Unnarsdóttir, er meðal 25 efnilegustu nýútskrifaðra fatahönnuða veraldar. Þetta er mat tískuvefsins Muuse.com.

 

„Þetta er mjög mikils virði fyrir mig,“ segir Sigrún Halla í samtali við Agl.is. „Það er rosalega erfitt að koma línum í framleiðslu án þess að hafa sterkt bakland en þessi síða gefur mér möguleika á að selja línuna án þess að leggja út í neina fjárhagslega áhættu í framleiðslu og öðru slíku.“

Muuse, sem er með höfuðstöðvar sínar í Kaupmannahöfn í Danmörku, býður hönnuðunum 25 að selja og framleiða fötin hjá sér. Engar flíkur eru framleiddar fyrr en lögð hefur verið inn pöntun fyrir henni á vefnum.

sigrun_halla_honnun_web.jpg „Ég hef líka tækifæri á að hanna nýjar línur og selja á síðunni. Það gefur mér ákveðið spark í rassinn að halda áfram að sinna minni hönnun þótt ég að stökkvi í önnur verkefni þess á milli. Þetta er líka frábær auglýsing og viðurkenning.“

Sigrún Halla útskrifaðist með meistaragráði í fatahönnun frá Kolding-hönnunarskólanum í sumar. Útskriftarlína hennar hefur verið sýnd víða og fengið mikla athygli fjölmiðla. Meðal annars var fjallað um hana í danska dagblaðinu Jótlandspóstinum. Vinnustofa hennar er í Reykjavík.

„Ég tók djarfa ákvörðun um að koma aftur til Íslands en þrátt fyrir að hér sé spennandi umhverfi til þess að vera í er þetta líka ákveðin áhætta. Ég er of heimakær til þess að vera of lengi í burtu í einu. Ég er komin með lítið stúdíó í Reykjavík en ég hef líka verið að vinna fyrir austan að vöruhönnunarverkefninu Norðaustan 10 sem styrkt er af Þorpinu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.“