![](/images/stories/news/folk/tara_osp_austari2015.jpg)
Tara Ösp Austfirðingur ársins 2015: Ómetanlegt að finna þennan meðbyr
Tara Ösp Tjörvadóttir hefur verið valin Austfirðingur ársins 2015 af lesendum Austurfréttar. Tara Ösp var í fyrra meðal þeirra sem hrundu af stað átakinu #égerekkitabú og stofnenda samtakanna Geðsjúk.
„Það hlýjar mér virkilega um hjartaræturnar að finna að ég sé Austfirðingur, sama hvar ég er og ég verð alltaf stoltur Austfirðingur. Þessi titill er mér mikill heiður,“ sagði Tara þegar hún tók við viðurkenningunni í dag.
Alls voru 14 einstaklingar eða hópar tilnefndir en Tara tók forustuna strax og fékk að lokum rúm 30% atkvæða. Þórunn Ólafsdóttur, sem starfað hefur sem sjálfboðaliði við móttöku flóttamanna á grísku eynni Lesbos og vakti athygli á stöðu þeirra hérlendis, varð önnur með um 20%.
Tara Ösp flutti í Egilsstaði um fermingu en hefur undanfarið ár búið í Danmörku þar sem hún stundar nám í margmiðlun. Hún hefur um árabil glímt við þunglyndi og ræddi eigin reynslu, meðal annars af geðheilbrigðismálum á Austurlandi, í ítarlegu viðtali sem birtist í Austurglugganum í lok október.
„Ég gerði mér enga grein fyrir hvernig fólk myndi bregðast við viðtalinu. Ég hafði aldrei áður rætt geðheilbrigðismál en svo opnaði ég mig í viðtalinu.“
Hún segist hafa fengið afar jákvæð viðbrögð í kjölfarið. „Það hefur verið mér ómetanlegt að finnan þennan meðbyr og hversu tilbúnir Austfirðingar eru að ræða þessi mál og hvernig bæta megi þjónustuna. Ég fékk mjög jákvæð viðbrögð og fann alveg að umræðan var þörf.“
Tara vinnur nú að uppbyggingu samtakanna og í verkefninu Andlit þunglyndis þar sem hún tekur andlitsmyndir af fólki sem glímt hefur við þunglynd. Hún stödd hér á landi við tökur. „Með myndunum vonast ég til að hjálpa fólki til að koma út úr sínum geðsjúku skápum og deila sögum sínum. Ég verð í Reykjavík í næstu viku að mynda fólk og ef Austfirðingar eiga leið um og vilja mæta í tökur mega þeir hafa samband við mig.“
Tara fékk viðurkenningarskjal og blómvönd frá Austurfrétt og gjafabréfið silfurreyni frá Gistihúsinu á Egilsstöðum með gistingu, þriggja rétta kvöldmat og aðgengi að baðhúsinu fyrir tvo.