![](/images/stories/news/folk/Anya_Shaddock.jpg)
„Þau eru með brjálæðislega flottar hugmyndir“
„Við hugsum SamEind til þess að sameina firðina enn frekar, við eigum svo mikið að flottum krökkum sem eru uppfull af frábærum hugmyndum, en þetta er góður vettvangur fyrir þær,“ segir Sonja Einarsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstövarinnar Svezkjunnar á Reyðafirði, en síðastliðinn föstudag var hönnunar- og söngkeppnin SamEind haldin í Egilsbúð í Neskaupstað, en það er sameiginlegt verkefni félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð.
Sex atriði tóku þátt í söngkeppninni og í efsta sæti varð Anya Shaddock úr Hellinum á Fáskrúðsfirði með frumsamið lag, In the end, en auk þess að syngja spilaði Anya á hljómborð. Í öðru sæti varð Jóhanna Gabriela Lecka úr Knellunni á Eskifirði með lagið Flashlight og í þriðja sæti varð Kasia Rymon Lipinska úr Atóm í Neskaupstað með lagið Say something. Efstu þrjú sætin í söngkeppninni tryggðu þátttöku á SamAust söngkeppni félagsmiðstöðva á öllu Austurlandi sem haldin verður í febrúar.
Í Stíl-hönnunarkeppninni var einungis eitt lið skráð til leiks og kom það úr Knellunni á Eskifirði, en það skipuðu þær Aníta Guðrún, Eva Björk, Magda og Svanhildur Sól. Þær unnu sér sæti í úrslitum Stíl í Hörpunni í Reykjavík.
Dómarar voru þau Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir, Guðrún Egilsdóttir og Þorvaldur Einarsson. Eftir að dómarar voru búnir að kynna úrslitin var ball fram á kvöld. Um sextíu krakkar úr sveitarfélaginu mættu og skemmtu sér vel.
Markmiðið að efla Stíl á nýju ári
Aðeins eitt atriði tók þátt í Stíl-hönnunarkeppninni. „Það er áhugi og þau eru með brjálæðislega flottar hugmyndir og langar að taka þátt, málið er að við þurfum öll að hvetja þau áfram, bæði félagsmiðstöðvarnar, skólarnir, aðstandendur og samfélagið allt. Við vildum ekki hætta við keppninna þó svo aðeins eitt lið hafi skráð sig til leiks, heldur frekar sýna hvað í þeim býr og veita þeim viðurkenningu fyrir gott starf. Markmiðið fyrir næsta ár er að veita þessum hluta meiri stuðning innan félagsmiðstöðvanna,“ segir Sonja.
Sonja segir að gaman hefði verið að sjá enn fleiri söngatriði í keppninni. „Við vorum þó alsæl með þessi sex sem kepptu, við eigum ótrúlega flott tónlistarfólk og að frumsamið lag hafi sigrað, það er alveg frábært,“ segir Sonja að lokum.
Ljósmyndin: Anya Shaddock, ljósmynd er fengin af heimasíðu Fjarðabyggðar.