"Þetta er stærsta kvöld lífs míns"

Það hefur vart farið framhjá neinum að kanadíska poppstjarnan Justin Bieber kom hingað til lands á dögunum og hélt tvenna tónleika í Kórnum í Kópavogi. Stærstur hluti tónleikagesta voru ungar stúlkur sem margar hverjar hafa verið einlægir aðdáendur hans í áraraðir þrátt fyrir ungan aldur. Ein þeirra er Móeiður Guðmundsdóttir frá Reyðarfirði.



„Við vorum komnar í röðina um eitt, í grenjandi rigningu og kulda og við vorum bara í þunnum jökkum enda búið að segja okkur að maður ætti ekki að vera mikið klæddur,“ segir Móeiður sem var í slagtogi með vinkonum sínum frá Reyðarfirði en mikill fjöldi unglinga að austan fór til þess að berja goðið sitt augum.

Móeiður segir að þær hafi ákveðið að mæta snemma til að freista þess að ná stæði framarlega við sviðið. „Þegar við mættum voru svona 25 manns á undan okkur þannig að við sáum að við yrðum framarlega en áttuðum okkur ekki á því að við næðum að komast í fremstu röð,“ segir Móeiður en þær stöllur komust alveg upp að öryggisgirðingunni við sviðið.

Móeiður segist hafa verið hrædd um að það myndi líða yfir sig af geðshræringu þegar stjarnan hennar mætti á svið.

„Þetta var bara allt svo óraunverulegt, ég fékk bara svona mjög góða tilfinningu sem ég get ekki útskýrt, en ég er búin að bíða eftir þessu í átta ár. Ég varð líka geðveikt stressuð, bara eins og maður væri að tala við strákinn sem maður er hrifin af.“

Móeiður á ekki í vandræðum með að svara því hver hápunktur kvöldsins var fyrir henni. „Í einu laginu kom hann alveg fram á sviðið og horfði lengi í augun á okkur. Við öskruðum geðveikt mikið, þetta var alveg ótrúlegt, ég vildi ekki að þetta yrði búið. Þetta er stærsta kvöld lífs míns, það er bara svoleiðis.“

Móeiður vill ekki gera mikið úr þeim gagnrýnisröddum sem fóru af stað eftir tónleikana, að söngvarinn hefði „mæmað“ og ekki gefið mikið af sér. „Auðvitað mæmaði hann eitthvað þegar hann var að dansa. En mér fannst það engu máli skipta, málið var bara að sjá hann. Sjóvið var líka klikkað og dansararnir frábærir. Þetta var bara allt betra en ég hafði nokkru sinni búist við og ég vona að ég eigi eftir að komast á fleiri tónleika með honum.“


Missti aldrei trúna á Bieber

Móeiður hefur verið aðdáandi tónlistarmannsins frá því hún var sjö ára gömul, eða í átta ár. „Herbergið mitt var þakið myndum af honum og ég málaði það fjólublátt því það er hans uppáhaldslitur. Ég átti líka fullt af hlutum með honum, til dæmis vekjaraklukku.“

Aðspurð hvað hafi vakið þennan mikla áhuga í upphafi segir Móeiður: „Ég veit það ekki. Líklega hversu krúttlegur hann var og með barnalega og fallega rödd. Í dag finnst mér hann geðveikt myndarlegur, fyndinn og flottur með fallega rödd og er með frábæra tónlist.“

Missti Móeiður aldrei trúna á goðinu sínu? „Ég man þegar hann var að ganga í gegnum erfiða tímabilið sitt á árunum 2013-2014 og var í algeru rugli, þá sögðu allir að hann myndi bara hætta. Ég hélt alltaf í vonina og missti aldrei trúna á því að hann kæmi aftur úr pásu, sem og hann gerði.“

Sumar stúlkur hafa lýst því yfir að þær hafi verið raunverulega ástfangnar af söngvaranum, var Móeiður það? „Já. Ég var oft spurð að því þegar ég var yngri hvort ég væri skotin í einhverjum og svarið mitt var alltaf það sama: Justin Bieber. Ef við áttum að gera verkefni í skólanum um einhverja persónu þá gerði ég alltaf um hann. Ég man að stelpurnar stríddu mér mikið á því að ég væri raunverulega hrifin af honum og ég grét stundum af því ég var svo viðkvæm fyrir þessu. Bræður mínir stríddu mér líka stanslaust á því að ég væri „Belíber“, sem ég er.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.