
„Þetta eru heillandi og myndræn dýr“
„Ég hafði aldrei komið á Austurland og varla séð hreindýr, en þótti þetta mjög spennandi,“ segir líffræðingurinn Skarphéðinn Þórisson hjá Náttúrustofu Austurlands um upphaf þess sem leiddi svo til þess að hann hefur að mestu helgað hreindýrum sinn starfsferil. Að austan á N4 heimsótti Skarphéðinn á aðventunni.
„Dýrunum hefur fjölgað undanfarin ár og líkamlegt atgerfi er í góðu lagi, dýrin hafa það mjög gott hérna, hér eru engin rándýr og þau þurfa ekki að óttast neitt nema manninn á veiðitíma. Við erum reyndar uggandi yfir hnatthlýnun eins og annarsstaðar í heiminum – hvað það gerir, koma hér sjúkdómar eða snýkjudýr sem við þekkjum ekki, en við reynum að fylgjast með þessu og oft þá í sambandi við erlenda vísindamenn,“ segir Skarphéðinn.
Skarphéðinn segir hreindýrin mjög merkilegar skepnur. „Þau eru merkilega aðlöguð erfiðu líferni, þrauka við allskonar skilyrði á veturna, í hríðarbyl – þetta eru heillandi og myndræn dýr.“