![](/images/stories/news/2016/Götuþríþraut.jpg)
„Það stefnir í góðan dag“
Undirbúningur fyrir Götuþríþrautina á Eskifirði stendur nú sem hæst, en keppnin fer fram á laugardagsmorgun.
Er þetta í sjöunda skipti sem Götuþríþrautin er haldin á Eskifirði og er því orðin fastur liður í sjómannadagshelginni.
Hildigunnur Jörundsdóttir, einn af stjórnendum þrautarinnar, segir stefna í góðan dag.
„Veðurspáin er er rosa flott og skráningin góð. Keppt verður í sömu flokkum og áður – börn og fullorðnir saman, lið eða einstaklingar sem takast á við sund, hjól og hlaup í mismunandi vegalengdum.
Þáttakendur koma flestir frá Austurlandi en í ár erum við með erlenda keppendur og einhverja sem koma lengra að eins og oft áður. Reiknað er með svipuðum fjölda keppenda og í fyrra og stefnir í hörkukeppni í öllum flokkum,“ segir Hildigunnur.
Hildigunnur segir frábært að slíkur viðburður, sem krefjist svo mikils undirbúnings og útsjónarsemi geti verið haldinn á Eskifirði ár eftir ár, en þörfin á sjálfboðaliðum er rík.
„Það hefur gengið vonum framar að ráða í stöður sjálfboðaliða og eru stjórendur afar þakklátir fyrir það og í raun er alveg ótrúlegt hve vel gengur að biðja fólk um að vakna eldsnemma á laugardagsmorgni um sjómannadagshelgi til að vinna sjálfboðavinnu. Það er greinilegt að fólk vill að viðburðurinn gangi vel og sé haldinn árlega, enda er gaman að flygjast með keppnini og öllu því duglega og frábæra fólki sem tekur þátt.“
Vilja taka vel á móti öllum keppendum
Hildigunnur biður þá sem ætla fylgjast með keppninni að leggja bílum sínum við kirkjuna eða á öðrum bílastæðum og rölta um bæinn þannig að umferð haldist í lágmarki meðan á keppninni stendur.
„Við viljum mynda stemmningu við markið og taka vel á móti öllum keppendum svo að allir upplifi sig sigurvegara. Fyrstu keppendur verða ræstir fyrir klukkan átta um morgunin og reiknað er með að keppnin standi fram yfir hádegi. Verðlaunaafhending er svo við skemmtidagskrá á Eskjutúninu klukkan 16:00 þar sem sigurvegarar verða verðlaunaðir og í ljós kemur hvort einhver met verða slegin.
Við þökkum styrktaraðilum því án þeirra væri þetta ekki hægt. Eskja, Landsbankinn, Tanni Travel og Fjarðabyggð eru þeir stærstu, auk fyrirtækja sem koma að með verðlaun í happdrætti sem er haldið fyrir þátttakendur eftir að keppni líkur. Þetta er ómetanlegt allt saman og samhugurinn mikill“
Búið er að loka fyrir skráningu í keppnina sjálfa en enn er fagnandi tekið á móti sjálfboðaliðum, en skráningar fara fram hér.