„Það er svo gaman þegar skrítnar hugmyndir verða að veruleika“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jún 2016 12:09 • Uppfært 20. jún 2016 12:12
„Þetta heppnaðist mjög vel og mættu um 120 manns, allsstaðar að úr fjórðungnum,“ sagði Christa M. Feucht, annar skipuleggjandi tónleikana Rock the boat sem fram fóru á Breiðdalsvík að kvöldi þjóðhátíðadags.
„Við vorum smá stressuð því það rigndi seinnipartinn, en svo stytti upp og kvöldið var einstaklega fallegt, sólin skein á hljómsveitina og allt var eins og best verður á kosið.
Ég hef bara fengið mjög jákvæð viðbrögð og mikið hrós og við erum staðráðin í að gera þetta aftur að ári og nú þarf bara að fara að huga að fjármagni, en í heildina kostar viðburður sem þessi um 500 þúsund,“ segir Christa.
Datt ekki annað í hug en að segja já
Það er Kvenfélagið Hlíf á Breiðdalsvík í samstarfi við Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði sem stóð fyrir tónleikunum, en þar komu fram þeir Teitur Magnússon og Prins Póló fram ásamt hljómsveit. Frétt um tilurð þeirra má lesa hér.
Jón Knútur Ásmundsson lék á trommur með hljómsveitinni.
„Stemmningin var alveg einstaklega hugguleg,“ segir Jón Knútur sem segist ekki áður hafa tekið lagið um borð í bát.
„Mér finnst þetta alveg frábært framtak í alla staði og gaman að hafa slíkan viðburð á Breiðdalsvík. Það er svo gaman þegar skrítnar hugmyndir verða að veruleika og mér datt ekki annað í hug en að segja já við því að taka þátt,“ segir Jón Knútur.


Ljósmyndir: Esther Ösp Gunnarsdóttir