Skip to main content

Þar sem Coca-Cola auglýsingarnar eru bannaðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2016 17:39Uppfært 21. mar 2016 17:39

Cittaslow þemað á Djúpavogi er meginviðfangsefni umfjöllunar um Austurland sem birtist í breska blaðinu The Guardian um helgina. 


„Heimili hægagangsins, þar sem Coca-Cola og bensínstöðvaskilti eru bönnuð en vinnustofur listamanna og handverksfólks eru auglýst upp,“ er lýsingin sem dregin upp af Djúpavogi sem er kallaður „höfuðstaður hæglætis á Íslandi“. Meðal þess sem talið er upp á Djúpavogi er Arfleifð, Eggin í Gleðivík og steinasafnið.

Sveitarfélagið var vorið 2013 tekið í hóp Cittaslow sveitarfélaga. Hreyfingin byggir á hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar og á rætur sínar að rekja til Ítalíu og er á vissan hátt andóf við hraða og hnattvæðingu nútímans.

Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.

Blaðamaður The Guardian talar um tilraun Austfirðinga til að sýna „gestum Ísland hægt“. Fleira fangar athygli hans á ferðinni. Maturinn á Gistihúsinu á Egilsstöðum er lofaður í hástert og staðnum lýst sem skyldustoppi fyrir matarunnendur.

Komið er inn á Fortitude-tengingu Reyðarfjarðar og stríðsárasöguna, svartir sandarnir við Breiðdalsvík þykja mynda einstaka andstæðu við hvítan snjóinn og Óbyggðasafnið í Fljótsdal þykir spennandi þar sem tækifærið gefist til að gista á safni.

Og að ferðalokum kemst blaðamaðurinn að því að ferðin hafi kannski ekki verið svo hæg. „Á fjórum dögum gerði ég líklega meira en ég hefði gert í borgarferð. Ég var bara ekki jafn útkeyrður að lokum.“