Þórunn Ólafsdóttir Austfirðingur ársins 2016

Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði var valin Austfirðingur ársins 2016 af lesendum Austurfréttar. Þórunn hlýtur viðurkenninguna fyrir störf sín til hjálpar flóttamönnum og fyrir að vekja athygli á kynferðislegri áreitni í garð fiskvinnslufólks.


„Mér þykir mjög vænt um þessa viðurkenningu og hún hvetur mig til dáða. Annars vegar sýnir þessi viðurkenning að málefni fólks á flótta eru samfélaginu hugleikin og það þykir mér gott. En mér þykir ekki síður vænt um að ég hafi verið tilnefnd fyrir greinina sem ég skrifaði um þá kynferðislegu áreitni sem viðgekkst á mínum fyrsta vinnustað,“ segir Þórunn.

Hún fékk verðlaunin afhent í Reykjavík á sunnudag en hún fékk að launum viðurkenningarskjal frá Austurfrétt, bókina Hesta eftir Pétur Behrens sem Bókstafur gefur út og gjafabréf fyrir tvo hjá Gistihúsinu á Egilsstöðum.

Þórunn flutti aftur heim til Íslands í ágúst eftir að hafa búið erlendis í sex ár. Fyrri hluta síðasta árs var hún í Grikklandi til að aðstoða flóttafólk en hún er stofnandi og formaður samtakanna Akkeris sem aðstoða og vekja athygli á málefnum flóttafólks. Hún hefur hlotið fleiri viðurkenningar fyrir þau störf sín.

„Persónulega finnst mér hjálparstarfið mjög sjálfsagður hlutur og ég hef sagt það áður að mér þyki smá ógnvekjandi þegar þessi borgaralega skylda að hjálpa öðrum sé orðin að einhvers konar hetjudáð.

Ég hef reynt að hvetja aðra til dáða. Þó ég hafi haft tíma og svigrúm til að fara á staðinn, sem ekki allir geta, þá geta allir gert eitthvað á sinn hátt. Fólk upplifir oft vanmátt gagnvart stóru verkefni og að eitt lítið handtak skipti ekki máli en dæmin sýna annað. Við getum öll gert eitthvað.“

Þórunn er jafnframt dálkahöfundur hjá Austurglugganum. Þar skrifaði hún í mars í fyrra grein um kynferðislega áreitni sem viðgekkst á hennar fyrsta vinnustað, í fiskvinnslu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Greinin fékk mikil viðbrögð og Þórunn segist þakklát þeim sem höfðu samband við hana. „Mér fannst mjög ógnvekjandi að birta hana, var með hnút í maganum og svaf lítið nóttina áður en hún birtist. Viðbrögðin eiga það til að verða ofsafengin þegar stungið er á svona kýli.

Ég fékk strax margar svipaðar sögur frá konum sem höfðu unnið á þessum vinnustað sem og öðrum vinnustöðum og vissi strax að það hafði verið rétt ákvörðun að birta þessa frásögn. Og þó fyrr hefði verið. Vonandi hefur opnun þessarar umræðu orðið einhverjum til gagns og eitthvað breyst til hins betra þó langt sé í land.“

Austurfrétt hefur frá árinu 2012 staðið fyrir kosningu á Austfirðingi ársins. Þessi hafa áður hlotið viðurkenninguna:

2015: Tara Ösp Tjörvadóttir
2014: Tinna Rut Guðmundsdóttir
2013: Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson
2012: Árni Þorsteinsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.