Þórunn Ólafsdóttir hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Fáskrúðsfirðingurinn Þórunn Ólafsdóttir hlaut í morgun mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. Þórunn hefur frá síðasta sumri dvalið að mestu á grísku eynni Lesbos sem sjálfboðaliði við að hjálpa flóttafólki og verið óþreytandi í að vekja athygli Íslendinga á málefnum fólks á flótta.


Mannréttindaverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Þórunn er erlendis en amma hennar og nafna veitti verðlaununum móttöku.


„Fátt veldur mér meiri áhyggjum en að búa í heimi þar sem það þykir hetjudáð að hjálpa öðrum. Með því að standa vörð um mannréttindi annarra stöndum við líka vörð um okkar eigin,“ segir í ávarpi frá Þórunni sem vinkona hennar frá Seyðisfirði, Hildur Karen Sveinbjarnardóttir, flutti við afhöfnina.

„Mannréttindi eru nefnilega ekki náttúrulögmál eða sjálfsagður réttur sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda. Mannréttindi eru pólitísk ákvörðun.

Réttindi sem formæður okkar og feður þurftu að berjast fyrir og geta verið tekin af okkur, brotin og hunsuð á margvíslegan hátt - af stjórnvöldum, atvinnurekendum eða samborgurum. Mannréttindi eru ekki annað en blek á blaði ef við verndum þau ekki með orðum okkar og gjörðum.“

Í ræðunni segir að allir borgarar beri saman ábyrgð á vernd mannréttinda. Sá sem standi hjá þegar réttindi annars eru brotin sé samsekur. Ýmsar leiðir séu til að hjálpa þótt maður sé ekki endilega á staðnum.

„Öll getum við opnað hjörtun og sýnt hverju öðru skilning og kærleika. Látið vita að okkur stendur ekki á sama og látið í okkur heyra þegar níðst er á fólki - með orðum eða gjörðum. Og öll getum við gætt að því hvað við kaupum, hvers við neytum, hvað við segjum og hvernig við kjósum.“

Þórunn sagðist taka við verðlaunum með þakklæti og auðmýkt. Þau væri henni hvatning í að vinna áfram að því markmiðið að gera heiminn að „svolítið bærilegri stað“ þótt það virðist stundum vonlaust.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði við afhendingu verðlaunanna að Þórunn hefði unnið þrotlaust að hjálparstarfi þar sem neyðin væri mest í Evrópu. Við það hefði hún lagt allt í sölurnar fyrir starf sitt að mannúðarmálum og sjálfa sig jafnvel í hættu um leið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.