Þrír Austfirðingar á gestalista Guðna
Þrír Austfirðingar voru á gestalista í veislu sem nýkjörinn forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hélt fyrir fjölskyldu og vini á mánudagskvöld. Veislan var haldin á Bessastöðum eftir embættistökuna í Alþingishúsinu.
Austfirðingarnir eru Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi og markaðsstjóri á Fljótsdalshéraði, Esther Ösp Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi og bæjarfulltrúi Fjarðabyggð og Smári Geirsson, fræðimaður og fálkaorðuhafi í Fjarðabyggð.
Á listanum má einnig finna nafn Þórðar Vilbergs Guðmundssonar, sagnfræðinema frá Reyðarfirði.
Gestalistinn í heild var birtur á Mbl.is í gærkvöldi. Á listanum eru nöfn 163 einstaklinga sem boðið var til veislunnar en Austurfrétt hefur ekki upplýsingar um hverjir mættu þangað. Sem fyrr segir var fjölskyldu og vinum boðið til veislunnar en einnig fjöldamörgum sjálfboðaliðum sem unnu að framboði Guðna.
Guðni Th. og Esther Ösp. Mynd: Forsetaframboð Guðna Th. Jóhannessonar