Þurfti mikla leit til að finna handritið að Skrúðsbóndanum

Berta Dröfn Ómarsdóttir frá Fáskrúðsfirði lauk nýverið meistaranámi í ljóða- og kirkjusöng frá Conservatorio Claudio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu. Hún er ánægð með dvölina á Ítalíu og hlakkar til að takast á við næstu verkefni og skoðar meðal annars handritið að Skrúðsbóndanum, fyrsta íslenska söngleiknum.


Berta útskrifaðist úr skólanum í lok október og hefur síðan verið að velta fyrir sér framtíðinni. Hún fór meðal annars í áheyrnarprufur í La Scala-óperunni í Mílanó, einu þekktasta óperuhúsi heims. Í lok mánaðarins fer hún til Bolzano að syngja og þaðan til New York í prufur.

Berta hefur líka kennt í Söngskólanum og sungið hér heima við ýmis tækifæri, til dæmis í messu hjá móður sinni, Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarpresti á Fáskrúðsfirði um jólin og athöfnum í Grindavík. Þá hélt hún tónleika í Salnum í Kópavogi fyrir viku með áherslu á ljóða- og kirkjusöng sem var það sem hún nam í Bolzano.

„Kennarinn skiptir alltaf mestu máli því námið er svo persónulegt. Ég hef mikinn áhuga á ljóðasöng og kennarinn minn líka. Hún er þýskumælandi þannig að ég lærði þýsku í gegnum hana en fædd og uppalin á svæðinu þar sem ég vildi vera,“ segir Berta í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans en íbúar í Bolzano, sem er rétt við austurrísku landamærin tala bæði ítölsku og þýsku.

Táknmyndirnar að hverfa

Lokaritgerð hennar í skólanum var um táknmyndir í líkamsbeitingu. Þar bar hún saman líkamsstöður og birtingamyndir nokkurra kvenhlutverka, svo sem drottninga og gyðja, í mismunandi listgreinum frá barrokktímanum.

Berta segir skilning á þessum táknmyndum vera að tapast í nútímanum. „Sagan í listaverkinu er oft miklu dýpri en virðist við fyrstu sýn. Það skiptir máli hvort persónan stígur fram eða aftur, horfir upp eða niður. Það voru reglur um alla þessa hluti sem fólk kunni.“

Mamma með áhuga á Skrúðsbóndanum

Á Fáskrúðsfirði hefur móðir Bertu reynt að sannfæra hana um að setja upp Skrúðsbóndann, sem oft er nefndur fyrsti íslenski söngleikurinn. Hann er eftir Björgvin Guðmundsson og byggir þjóðsögunni um tröllkarlinn í eyjunni Skrúð sem seiddi til sín fagra og saklausa prestsdóttur.

Söngleikurinn var fyrst settur upp á Akureyri 1941 við miklar vinsældir og hefur tvisvar verið sýndur þar síðar í styttri útgáfu. Mikið átak þurfti til að finna handritið.

„Það hefur blundað í mömmu síðan hún tók við prestsembættinu að setja hann upp. Ég fór í heljarinnar leit að handritinu fyrir hana þegar ég var síðast á landinu. Björgvin handskrifaði það á sínum tíma og það var sett upp en það var aldrei gefið út

Ég fór víða og fékk ýmislegt fólk með mér í lið. Að lokum fundum við yndislega konu sem er einlægur aðdáandi Björgvins, safnar öllu um hann og sat á þessu handriti.

Mamma fékk handritið og ég fékk fyrst að sjá þegar ég kom heim um jólin. Ég á eftir að meta hvort þetta sé gerlegt. Helst vildi ég setja söngleikinn á svið með fólki héðan af svæðinu sem brennur fyrir því.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.