Þurfti snör handtök til að bjarga bolludeginum á Vopnafirði

Litlu munaði að Vopnfirðingar fengju fáar bollur annað árið í röð eftir að bollur, sem pantaðar voru úr Reykjavík, urðu eftir þar. Eigandi verslunarinnar Kauptúns brást við með að baka tæplega 200 stykki í eldhúsi verslunarinnar þar sem allra jafna eru bökuð forbökuð brauð frá Myllunni.

„Þegar síðasti flutningsaðili var kominn austur fundum við út að um 300 bollur sem við höfðum pantað viku fyrr hefðu ekki komið,“ segir Berghildur Fanney Oddsen Hauksdóttir, sem rekur Kauptún, einu kjörbúð staðarins.

Bollurnar hafa stuttan endingartíma og er því reynt að koma þeim bæði eins seint og beint og hægt er á flutningabíla. Veðurspáin fyrir síðustu helgi var slæm og fór bíllinn því á undan áætlun úr Reykjavík og því urðu bollurnar eftir.

Hvorki sá sem skilaði inn bollunum var látinn vita af flýttri brottför, né Fanney og hennar fólk sem beið á hinum endanum. Síðla föstudags náðist ekki í flutningsaðilanna til að komast að því hvar bollurnar væru niðurkomnar. Að morgni laugardags skírðist að bollurnar hefðu orðið eftir í borginni og erfitt að nálgast þær þar.

Bolludagurinn í hættu annað árið í röð

Þá þurfti að hugsa hratt. Nokkrar bollur voru til frosnar, einnig gat Fanney fengið aðila á Akureyri til að fara í búðirnar þar, kaupa þær bollur sem hann náði í og koma með austur en afganginn, um 200 stykki, bakaði hún sjálf. Þá bætti það einnig stöðuna að ungmennafélagið Einherji hefur haft þann sið að selja bollur á vinnustaði.

Að bjarga bolludeginum varð enn meira aðkallandi því vegna mistaka syðra bárust alltof fáar bollur til Kauptúns í fyrra líka. Fanney kveðst hafa fengið góð viðbrögð hjá Vopnfirðingum fyrir vikið.

„Viðbrögðin hafa verið mjög góð enda Vopnfirðingar dásamlegt fólk. Þeir hafa verið óskaplega glaðir með að einhver tryggði að þeir gætu keypt bollur, fyrst svona fór í fyrra. Að vera í svona stöðu er rússíbani meðan á henni stendur en síðan er hægt að hafa gaman af eftir á. Við lærum af þessu í skipulaginu fyrir næsta ár.“

Þarf að geta hugsað lausnirnar hratt

Fanney tók við rekstri verslunarinnar síðasta sumar og segir það veruleika sem verslanir á landsbyggðinni þurfa að kljást við að mistök verði hjá flutningsaðilum þannig að vörur berast ekki á tilsettum tíma. Í því hafi hún lent oftar en einu sinni á þessum stutta tíma. „Þeir bregðast helst þegar eitthvað mikið stendur til, eins og fyrir jólin.“

Hún segir þó erfitt að reiðast flutningafyrirtækjunum, þótt mistök þeirra komi niður á verslununum sem þurfi að útskýra fyrir viðskiptavinum hví varan sem þeir væntu sé ekki til. Bæði flutningafyrirtæki og heildsalar hafi glímt við erfiðar aðstæður vegna Covid-faraldursins. Fyrir jólin hafi til að mynda margir starfsmenn verið í sóttkví auk þess sem aðeins tíu manns hafi getað verið í sama rými. Það hafi leitt til þess að afgreiðslufólk hafi ekki haft undan eða verið að hlaupa í störf og reyna að redda málum sem sem það var óvant.

„Ég held að allir séu að reyna sitt besta en þeir gera sér varla grein fyrir að ekki er hægt að kaupa bollur annars staðar á Vopnafirði. Við erum stanslaust að redda einhverju en þá þarf að bíta á jaxlinn, vera hugmyndaríkur við að hugsa í lausnum og hrinda þeim í framkvæmd.“

Og allt það saltkjöt sem Kauptún pantaði fyrir sprengidaginn barst á tilsettum tíma en salan á því hefur aldrei verið meiri. „Við pöntuðum 50 kg meira en í fyrra og það seldist allt. Vopnfirðingar voru greinilega nær allir heima og ætluðu að elda saltkjöt. Ætli ég verði ekki að panta 70 kg meira næst til að vera viss. Svo lengi lærir sem lifir og allt er gott sem endar vel,“ segir Fanney að lokum.

Berghildur Fanney og Eyjólfur Sigurðsson, eigendur Kauptúns. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.