„Tilfinningin verður örugglega geggjuð eftir hlaup“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. ágú 2016 12:19 • Uppfært 17. ágú 2016 22:37
„Allt sem hjálpar þér mamma við baráttuna við brjóstakrabbameinið,“ segir Dagur Þór Hjartarson, ellefu ára Norðfirðingur, á síðunni hlaupastyrkur, en hann ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á laugardaginn, til styrktar Krabbameinsfélagi Austfjarða.
„Ég er bara mjög vel stemmdur – spenntur og hlakka mikið til,“ sagði Dagur Þór í samtali við Austurfrétt í morgun, nú þegar aðeins eru fjórir dagar eru til stefnu.
Dagur Þór segist hafa tekið ákvörðunina um að taka þátt í maí og hafi síðan þá hlaupið 5-10 kílómetra tvisvar sinnum í viku.
„Mig langaði bara til þess að hjálpa til með einhverjum hætti. Það var pínu erfitt að hlaupa svona langt til að byrja með, en aðallega af því ég byrjaði allt of hratt, en gekk miklu betur eftir að ég fékk frænda minn, Jóa Tryggva, til að hjálpa mér að stilla hraðann,“
Dagur Þór er mikill íþróttamaður og æfir, fótbolta, blak og skíði. „Hlaupin hafa líka hjálpað mér í fótboltanum, bætt þrekið,“ segir Dagur, en honum og félögum hans í 5. flokk Fjarðabyggðar hefur gengið mjög vel á Íslandsmótinu í sumar og eru komnir í umspil í úrslitakeppninni.
Dagur Þór hefur aldrei verið í Reykjavík þegar maraþonið hefur farið fram og segist því ekki alveg vita við hverju hann á að búast. „Þetta er svolítið stórt allt saman, en kannski ætlar vinur minn að hlaupa með mér.“
Dagur Þór segist finna fyrir miklum stuðningi allsstaðar að úr samfélaginu. „Meira að segja þegar ég fer út í búð er fólk að tala um þetta við mig, það er mjög gott og tilfinningin verður örugglega geggjuð eftir hlaup.“
Nú þegar hafa safnast 550.000 krónur, en foreldrar hans, fjölsylda og vinir eru afar stolt af honum eins og vera ber. „Það hefur gengið rosa vel að safna, mikiu, miklu betur en við bjuggumst við,“ segir Dagur Þór að lokum, en hér er síðan hans og enn er nægur tími til stefnu að styðja þennan ofurkappa og leggja góðu málefni lið.