Tíndu yfir tuttugu lítra af hrútaberjum

Félagar úr Soroptimistaklúbbi Austurlands komu heim með fullar fötur eftir að hafa farið í berjamó í Hallormsstaðarskógi um helgina. Unnið verður úr berjunum til að afla fjár fyrir starfsemi klúbbsins.


Tíndir voru yfir 20 lítrar í tveimur ferðum. Fjórar konur fóru á laugardag og sex á sunnudag og voru tæpa tvo tíma úti í skógi í hvort skipti.

Þórunn Hálfdanardóttir, verkefnastjóri klúbbsins og heimamaður á Hallormsstað, segir hrútaberjasprettu í skóginum góða.

„Það er búið að tína geysimikið af berjum í skóginum í sumar. Það fer hins vegar hver að verða síðastur því berin eru eiginlega að verða of þroskuð, einkum niður við Fljót. Við þurfum að fara dálítið upp í skóg.“

Áætlað er að úr berjunum verði hægt að sjóða 120 krukkur af hlaupi. Það verður selt innan hópsins en einkum á landsþingi Soroptimista í byrjun október. Ágóðinn fer í verkefni sem klúbburinn kemur að.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.