![](/images/stories/news/2016/storm_wasser.jpeg)
Tónleikar og fyrirlestur um mannréttindi: Strom & Wasser á ferð um Austfirði
Þýska jazzsveitin Strom & Wasser er á ferð um Austfirði en hún kemur fram í Valaskjálf í kvöld með þekktum íslenskum tónlistarmönnum á borð við Ragnheiði Gröndal og Agli Ólafssyni. Forsprakki sveitarinnar er baráttumaður fyrir mannréttindum og verður með fyrirlestur um aðbúnað flóttamanna í Menntaskólanum á Egilsstöðum í dag.
Tónlist sveitarinnar er lýst sem blöndu af kabarett, rappi, fönki og þjóðlagatónlist þar sem tónlistararfur Evrópu er skoðaður. Sungið er á þýsku, ensku, íslensku og gelísku en Ragnheiður og Egill eru meðhöfundar tónlistar og textar.
Strom & Wasser var nýverið í tónleikaferð um Þýskaland og spilaði meðal annars á Hafnarhátíðinni í Flensborg og Wutsrock hátíðinni í Hamborg sem haldin var í 38. sinn.
Heinz Ratz, forsprakki sveitarinnar, er baráttumaður fyrir mannréttindum og lífrými þeirra sem eru án griðlands. Hann var nýverið heiðraður af þýska háskólasamfélaginu fyrir framlag sitt í þágu flóttamanna en þeim hefur hann ljáð rödd með þátttöku í tónlistinni.
Í fyrstu var þetta í óþökk kanslarans Angelu Merkel og stjórnar hennar en sýn hennar hefur breyst og stjórnvöld hafa nú boðist til að styðja við verkefnið.
Fyrirlestur Heinze, sem hann kallar „Hin nýja ásýnd Evrópu“ verður í Menntaskólanum á Egilsstöðum kl 16:00. Í upphafi segir Egill Ólafsson af kynnum sínum af Ratz, helstu afrekum hans og sérstöðu í þýsku samfélagi.
Tónleikarnir sjálfir hefjast svo klukkan 20:00. Sveitin spilaði á Seyðisfirði í gær en heldur síðan áfram norður í land.