Tryggvasafn.is komin í loftið

Nýverið var opnuð heimasíða Tryggvasafns á netinu á vefslóðinni www.tryggvasafn.is. Þar gefur að líta haldgóðar upplýsingar um listamanninn og safnið.

Það var styrkur frá Uppbyggingarsjóði Austurlands sem gerði safninu kleift að koma síðunni upp og með tilkomu hennar eiga allir auðvelt með að verða sér úti um helstu upplýsingar um safnið. Allar upplýsingar á síðunni eru bæði á íslensku og ensku.

Á síðunni má finna haldgóðar upplýsingar um listamanninn Tryggva Ólafsson, feril hans og hvað helst einkennir list hans. Eins má þar lesa sig til um sögu safnsins en það opnaði fyrst sýningu haustið 2001.

Frá árinu 2007 hefur Tryggvasafn verið til húsa í Safnahúsinu í Neskaupstað og er þar árlega komið upp sumarsýningu á vegum þess.

Þegar fyrsta sýning safnsins var opnuð í Safnahúsinu árið 2007 voru 210 verk í eigu þess. Síðan hefur verið lögð áhersla á að bæta myndum í safnið og þá einkum myndum sem stuðla að því að myndaeignin veiti góða innsýn í allan feril listamannsins. Nú eru í eigu safnsins um 150 lakk-, olíu- og akrýlmyndir, um 180 litógrafíur, klippimyndir og teikningar auk ýmissa prentaðra plakata. Alls eru því verkin í eigu safnsins vel á fjórða hundrað.

List Tryggva Ólafssonar hefur lengi vakið athygli og eru verk eftir hann í eigu listasafna víða um heim. Verk hans hafa skýr sérkenni og eru afskaplega litrík. Það hefur sýnt sig að fólk á öllum aldri hefur ánægju af að njóta listar hans.

Tryggvi fæddist í Neskaupstað árið 1940 en mestan hluta ferils síns var hann búsettur í Kaupmannahöfn. Tryggvi hélt ávallt góðum tengslum við gamla heimabæinn og fagnaði því innilega þegar sú hugmynd kviknaði að komið yrði upp safni með verkum hans þar. Tryggvi lést í ársbyrjun 2019.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.